132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:20]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna er komið til 3. umr. Eins og komið hefur fram lögðum við í Samfylkingunni fram þó nokkuð margar breytingartillögur við þetta lagafrumvarp. Það var nokkuð vel rætt í félagsmálanefnd og komu þangað margir gestir og margar góðar umsagnir.

Það verður að viðurkennast að ég er afskaplega svekktur yfir að meiri hluti félagsmálanefndar skyldi ekki sjá ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu. Við erum þó öll sammála um að þetta sé skref í rétta átt.

Fyrir nokkrum árum var lögð fram þingsályktunartillaga í þessa átt, um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Flutningsmenn voru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson o.fl. Það er gott að ráðherra skuli hafa brugðist við því með þessu frumvarpi en eins og ég segi er ég afskaplega svekktur yfir að þær breytingartillögur sem við komum með skyldu ekki hafa náð fram að ganga. Eins og komið hefur fram lögðum við til að í 5. gr. kæmi skýrt fram að Tryggingastofnun ríkisins færi með þessar greiðslur en ekki Vinnumálastofnun. En enn hefur ekki verið útskýrt af hverju í ósköpunum er tekin sú ákvörðun að færa þetta yfir til Vinnumálastofnunar, með öllum þeim viðkvæmu upplýsingum sem hér um ræðir.

Jafnframt höfðum við breytingartillögu við 8. gr., um réttindi foreldra, að þar mundi bætast við nýr málsliður, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með samfelldu starfi teljast einnig þau tilvik er foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, sjúkradagpeninga eða endurhæfingarlífeyri.“

Jafnframt vorum við með tillögu um viðbót við 3. mgr. í 8. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þarfnist barn áframhaldandi umönnunar foreldris og önnur úrræði eru ekki í boði að þeim níu mánuðum liðnum sem lög þessi veita réttindi til og foreldri kemst sannanlega ekki út á vinnumarkað af þeim sökum er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra.“

Ekkert af þessu var því miður samþykkt, frú forseti. Við gerðum jafnframt breytingartillögu við 9. gr., að í stað þess að bætur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna séu einungis 93 þús. kr. á mánuði skuli þær nema 80% af meðaltali heildarlauna sem miðist við tólf mánaða samfellt tímabil.

Við vorum líka með breytingartillögu við 11. gr., varðandi lífeyrissjóð, að þar skyldi ríkissjóður greiða mótframlag að lágmarki 7% en ekki 6%, sem er í sjálfu sér bara eðlileg prósentutala miðað við greiðslur úr lífeyrissjóði í dag.

Við vorum jafnframt með breytingartillögu við 12. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Þarfnist barn áframhaldandi umönnunar foreldris og önnur úrræði eru ekki í boði að þeim níu mánuðum liðnum sem lög þessi veita réttindi til og foreldri getur ekki stundað nám sitt af þeim sökum er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra.“

Þarna vildum við að tekið yrði tillit til foreldris í námi en ekkert af þessu var því miður samþykkt, hvorki af meiri hluta í félagsmálanefnd né meiri hluta á þingi. Eftir situr samt sem áður síðasta breytingartillagan, síðasta tilraun minni hlutans til að bæta lagafrumvarpið, sem er skref í rétta átt en afskaplega stutt og í sjálfu sér lítill kostnaður fyrir ríkissjóð. Breytingartillagan sem við leggjum fram núna, við 19. gr., gengur út á að þessar greiðslur verði ekki teknar upp í áföngum, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er stíft haldið í heldur komi þær strax til frá og með 1. janúar 2006 og greiðslur hefjist 1. júlí í sumar. Farið hefur verið yfir hvaða kostnaðarauka það mundi hafa í för með sér og er ekki að sjá að hann sé vandamálið.

Eins og ég nefndi komu fram margar mjög góðar og gagnlegar umsagnir um frumvarpið. Breytingartillögurnar eru samdar af minni hlutanum með tilliti til þeirra. Ég vil enn og aftur ítreka að þrátt fyrir þetta skref fram á við sem frumvarpið er og nauðsynlegt sé að koma þessum málum af stað þá er afskaplega skammt gengið. Ég tel það algjört lágmark ef meiri hlutinn sættist á þá breytingartillögu sem við leggjum fram við 3. umr. Það er t.d. spurning hvort orðið hafi einhver viðhorfsbreyting hjá nýjum hæstv. félagsmálaráðherra.