132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:27]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu sanngirnismál, eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En af því að ég er spurður um hvaða stefnu ég hafi í málinu nú þegar ég hef tekið við því þá er stefna mín er sú að halda samkomulag á milli stjórnarflokkanna um þetta skref. Ég tel að ísinn hafi verið brotinn í þessu máli og að tekið verði afar mikilvægt skref. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er langur aðdragandi að þessu máli. Ég kannast við umræðuna um það. Hún hefur staðið nokkuð lengi. En ég tel um afar mikilvægt skref að ræða og ég tel að við eigum að halda okkur við það samkomulag sem tekist hefur milli stjórnarflokkanna um málið.

Ég var spurður að því hvort ég hefði fundað með Umhyggju um málið. Ég minnist þess ekki að formaður Umhyggju hafi verið á viðtalslista mínum en ég hef alltaf látið forsvarsmenn samtaka ganga fyrir í viðtölum mínum, sem hafa verið fjölmörg síðan ég varð félagsmálaráðherra. En ég hef hug á að funda með formanni Umhyggju, hafa frumkvæði að því og ræða við formanninn um framkvæmd laganna, sem verða vonandi samþykkt á Alþingi.

Það má alltaf deila um hvenær svona löggjöf eigi að taka gildi. Hér hefur verið farin svipuð leið og þegar lögin um foreldraorlof tóku gildi. En ég tel að við eigum að halda okkur við samkomulagið sem hefur tekist um afgreiðslu þessa máls. Það er ekki þar með sagt að þar eigi að vera endapunkturinn. Ég hef hug á að fara rækilega yfir það mál og vinna að því áfram. Hér er um afar mikilvægt skref að ræða og ég tel að ísinn hafi verið brotinn í þessu efni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvort von væri á frumvarpi um tekjutengdar atvinnuleysistryggingar. Ég stefni að því að leggja það fram. Það er til meðferðar í stjórnarflokkunum og vonandi verður það samþykkt á þessu þingi. Ég tel það mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar, sem þingmaðurinn nefndi réttilega, sem hefur t.d. verið á Suðurnesjum, að við samþykkjum það frumvarp í vor. Ég mun leggja á það mikla áherslu og vonandi náum við að leggja það fram og ræða á næstu dögum.

Hér bar á góma hlutverk Vinnumálastofnunar í þessu máli. Ég tel að Vinnumálastofnun hafi burði til að geyma trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini sína, eðli málsins samkvæmt hlýtur hún að gera það. Ég tel ástæðu til þess að fara yfir það mál í heild, hve marga aðila foreldrar langveikra barna þurfa að hafa samband við eftir fæðingu barns. Ég tel ástæðu til að fara yfir þá heildarmynd og mun vonandi fara yfir það mál með forsvarsmönnum Umhyggju þegar sá fundur verður.

En sem stendur er reiknað með að Vinnumálastofnun annist málið. Ég tel að hún hafi fulla burði til að gera það. Ég vil þá frekar fara yfir heildarmyndina, yfir hverjir annist þjónustu við langveik börn. Ef sú mynd er of flókin, þ.e. sú þjónusta er of flókin er ástæða til þess að skoða það. Ég er reiðubúinn til þess en ég tel hægt að framkvæma þetta mál eins og það liggur fyrir ef það verður samþykkt, sem vonandi verður.