132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég talaði um að fara yfir heildarmyndina, hvernig umhverfi foreldrar langveikra barna búa við og hvort hægt væri að samræma eitthvað í því umhverfi. Ég sagði ekkert um það í sjálfu sér hvort ég vildi færa þetta til Tryggingastofnunar aftur. Ég vil ekkert fullyrða um það. Ég sagði að Vinnumálastofnun væri fullfær um að annast þessa þjónustu. Síðan vil ég gjarnan bara fara yfir málið í heild.

Varðandi innihald frumvarps um tekjutengdar atvinnuleysistryggingar þá tel ég ekki rétt að rekja frumvarpið hér meðan það er til meðferðar hjá stjórnarflokkunum. Ég vona að það líti dagsins ljós næstu daga. Á morgun þarf reyndar að leggja fram þau frumvörp sem á að taka fyrir án afbrigða. Frumvarpið er í samræmi við þær yfirlýsingar sem gefnar voru 15. nóvember í samtölum við aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Ég vonast til að það frumvarp líti dagsins ljós á næstu dögum. Ef málið verður samþykkt þá hefur það mikil áhrif og ég vil gjarnan fara yfir það án þess að það feli nokkur loforð í sér um breytingar. (Forseti hringir.) Ég er ekki reiðubúinn að hafa nein loforð uppi um það núna (Forseti hringir.) en ég vil fara yfir það í framhaldinu.