132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:39]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ef frumvarpið um atvinnuleysisbætur verður samþykkt þá verður það til mikilla bóta. En ég vara hv. þingmann við að lesa of mikið út úr orðum mínum og að það muni sjálfkrafa hafa áhrif á þetta mál. Það hefur áhrif á umræðuna í samfélaginu og ég sagði að ég teldi þetta skref í rétta átt og ég væri tilbúinn að vinna að málinu áfram í viðræðum við Umhyggju og fulltrúa þeirra sem hlut eiga að máli. En ég vara við að lagt sé út af orðum mínum þannig að einhver sjálfvirk tenging sé þarna á milli. Ég vil ekki lofa slíku. Ég vil að það liggi ljóst fyrir. Ég tók það fram að ég teldi frumvarpið mikilvægt skref en að við þyrftum að sinna þessu máli áfram.