132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Höfundalög.

664. mál
[17:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra nokkurra spurninga þó að ég viti að hér sé um að ræða tilskipun frá Evrópusambandinu. Fyrsta spurningin er hvort ráðherra viti hvað liggi að baki þessari tilskipun. Hvernig stendur á því að maður sem er búinn að kaupa verk sem hann telur vera sína eign þurfi að borga einhverjum manni úti í bæ þegar hann selur það á uppboði? Hvaða rök liggja að baki því?

Í öðru lagi, þau verk sem eru hvað leiðigjörnust munu væntanlega verða seld oftast. Hvaða rök eru fyrir því að listamaður sem semur eða skapar leiðigjarnt verk fái meiri tekjur en sá sem skapar verk sem menn geta ekki skilið við sig?

Síðan er spurningin sú: Hvaða rök eru fyrir því að þeir sem setja verk sín á uppboð, af því að þetta er skattlagning á uppboð, skuli greiða gjald til höfundar sem er einhvers staðar úti í bæ en ekki ef menn selja þetta beint á götunni fyrir framan uppboðið?