132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hans fyrir tillöguna og það erindi sem hann hefur flutt hér. Ég held að það sé brýnt að skoða þetta en þó sé alveg ljóst að ákveðna hluti þarf ekkert að skoða því við vitum nákvæmlega hvernig þeir liggja.

Það er þannig til að mynda um örorkulífeyrisþega að tekjutengingar við tekjur maka hafa sannarlega verið óhóflegar og kannski yfir höfuð rangar. Eins og hv. þingmaður þekkir þurfti Öryrkjabandalagið að sækja hér á stjórnarmeirihlutann, hvers flutningsmenn eru hluti af, upp í Hæstarétt til þess að fá það þó úrskurðað að hafi maki öryrkja einhverjar tekjur að gagni þá fái öryrkinn þó núna eftir hæstaréttardóminn rúmlega 40 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu á meðan hann áður þurfti við að búa við aðeins 20 þús. kr.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort sú tekjuskerðing sem nú er, þrátt fyrir hæstaréttardóminn, sé ekki líka einfaldlega röng og hvort ekki væri rétt að líta svo á að öryrkinn sé sjálfstæður einstaklingur þó að hann sé giftur og að hann þurfi á fullri framfærslu að halda þó að maki hans hafi tekjur. Einnig hvort það sé ekki til of mikils mælst af mökum öryrkja að þeir beri framfærsluábyrgðina á þeim alla ævi og hvort flutningsmenn vilji ekki bara einfaldlega flytja skýrar breytingartillögur við almannatryggingalöggjöfina sem afnemur tekjutengingar örorkulífeyrisþega við tekjur maka. Það dæmi sem hv. þingmaður nefndi hér um hjón sem skildu og fengu þá 400 þús. kr. meira út úr tryggingakerfinu, það gæti einmitt verið vegna þessarar tengingar við tekjur maka og virðist augljóst að það eigi að afnema þá tengingu og líta einfaldlega á hvern og einn einstakling (Forseti hringir.) sem sjálfstæðan því að auðvitað bitna þessar skerðingar fyrst og fremst á konum í tryggingakerfinu.