132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:16]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að full ástæða væri til að fara ofan í saumana á tryggingakerfinu alveg frá a til ö og ég held að við séum þeirrar skoðunar, þingmenn allra flokka, að það þurfi virkilegrar skoðunar við og uppstokkunar til nútímans. Ég get alveg tekið undir það. Við vonum að þetta mál nái fram að ganga og þá komi vinnan, sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á, að skoðaðir séu allir þættir þess hvort sem einstaklingar eiga við sjúkdóma að etja og teljist til örorkuþega eða ekki. Ég heyri að þeir sem hafa talað vilja framgang þessa máls og það er vel.