132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stöðu hjóna og sambúðarfólks og ég vil byrja á því að lýsa yfir fullum stuðningi við þessa tillögu, alfarið, því mér finnst hún góð. Við þurfum stöðugt að vera að kanna hvort um sé að ræða einhverjar gloppur eða oftryggingar í velferðarkerfinu og við þurfum sérstaklega að skoða hvort skatta- og bótakerfið breyti hegðun fólks sem ég hef mjög mikið á móti. Mér finnst að skatta- og bótakerfi eigi ekki að valda því að fólk skilji eða geri einhverja annarlega hluti.

Mér finnst, án þess að ég vilji þynna út tillöguna og án þess að ég vilji gera neinar breytingar, að það þurfi líka að skoða stöðu námsmanna. Ég hef bent á að bæturnar eru þar mjög ríflegar, mjög rausnarlegar og valda jafnvel ákveðinni félagslegri spennu. Mér finnst því að það þurfi að skoða lánasjóðinn í þessu sambandi. Alveg sérstaklega finnst mér að það þurfi að skoða stöðu meðlagsgreiðenda sem eru atvinnulausir. Sú staða er í rauninni allt að því skelfileg og ég vil nefna að atvinnulaus meðlagsgreiðandi sem greiðir með þremur börnum fær um 85 þús. kr. í atvinnuleysisbætur fyrir börnin þrjú og fyrir sjálfan sig en þarf að borga 45 þús. kr. í meðlög og það er engin miskunn. Hann hefur 40 þús. kr. til að lifa sjálfur af á mánuði og það þykir nú öllum, held ég, of lítið. Það mætti því gjarnan víkka þetta örlítið meira út án þess að ég vilji þar með rýra gildi tillögunnar og án þess að menn fari í of mikla skoðun því að tillagan sjálf er góð og ég vil helst að hún verði samþykkt.