132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:32]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni ágætisþingsályktunartillaga frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og fleirum. En ég hjó eftir því áðan að hv. málflytjandi hafði kvartað yfir því — ég ætla aðeins að hægja á mér, ég er að bíða eftir athygli hérna — að það væri yfirleitt þannig með þingsályktanir að þær kæmust ekki í gegn. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, og það er kannski nýliðabrek, að það vekur furðu mína að aftur og aftur skuli stjórnarþingmenn kvarta yfir þessu hér í púlti, jafnvel þegar þeir leggja fram sín eigin mál. Einhvern veginn hefði ég haldið að þingsályktunartillögur sem lagðar eru fram af meirihlutaþingmönum ættu að geta fengið brautargengi hjá þeim sjálfum og þeirra flokksmönnum. Mér finnst það ljóður á þinginu að aftur og aftur koma menn fram með ágætismál í formi þingsályktana og jafnvel lagafrumvarpa en ef það kemur ekki beint frá ráðherranum sjálfum virðist það ekki ná í gegn. Það vekur áhyggjur mínar, herra forseti, ef þetta er sú þróun sem er í gangi og er jafnvel orðin staðreynd og verður áfram. Það hlýtur að teljast ráðherraræði ef það er eingöngu ráðherrann sjálfur sem getur lagt fram mál og komið því í gegn.

Miðað við orðræðuna hér í dag og áður hafa menn nefnt að 80–90% þingmannamála væru nánast dauðadæmd um leið og þau væru lögð fram. Ég ítreka að mér finnst þetta vera ljóður á störfum þingsins og tel, herra forseti, að hér sé mál sem vert er að athuga og gera tilraun til breytinga á.