132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

223. mál
[17:45]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að lýsa ánægju minni með þessa tillögu til þingsályktunar frá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, um að stofna alþjóðarannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu sem skuli vera staðsett í Gunnarsholti. Einmitt þar á hún að vera, t.d. vegna sögunnar, því það er alveg geysileg saga í kringum Gunnarsholt vegna uppblástursins, og vegna nálægðarinnar við Heklu ef hugsað er um eldgosin og allt það landslag sem þar er. Staðsetning Landgræðslunnar í Gunnarsholti er merkileg, en hún hófst 1907, í þessu héraði þar sem sandfok var gríðarlega mikið og margar jarðir fóru í eyði upp úr 1800 og fram yfir síðustu aldamót síðustu aldar, 1900. Það hefur líka verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með því hversu Landgræðslan hefur unnið mikið starf til að vinna landið aftur. Það er ótrúlegt að sjá hvað þar hefur gerst. Þegar ég kom akandi í fyrsta skipti þessa svörtu sanda frá Reykjavík að Gunnarsholti fyrir rúmum 30 árum akandi voru þar aðeins svartar auðnir. Nú eru þarna bleikir akrar og gróin tún. Það sýnir sig að það er hægt að rækta upp landið og endurheimta landgæðin.

Nú eru mikil áform einmitt hjá Landgræðslunni varðandi Hekluskóga og Suðurlandsskóga, samstarfsverkefni. Það á að rækta mikinn skóg í nálægð við Heklu. Þetta eiga að vera nokkurs konar hamfaraskógar, eins og einn ágætur þingmaður hefur orðað það, skógur sem á að taka við öskufalli ef Hekla fer að gjósa.

Ég tel að svona stofnun sem miðli þekkingu á sviði vísindamanna frá þróunarlöndunum skipti miklu máli. Ég veit að það koma margir erlendir gestir í heimsókn til Landgræðslunnar í Gunnarsholti til að læra af þeim og forstjóri Landgræðslunnar fer víða um heim til að halda fyrirlestra eins og margir aðrir starfsmenn þar.

Við Íslendingar erum frumkvöðlar í þessu en það eru mjög margar þjóðir sem eiga í miklum erfiðleikum með landrof. Eins og kom fram hjá framsögumanni hér áðan þá er hægt að fara til Afríku, Nýja-Sjálands, Ástralíu, Nýfundnalands og fleiri landa sem eru að berjast við að halda moldinni á jörðinni og það gerist ekki nema með gróðri og þykkri gróðurþekju.

Vegna þess að Landgræðslan er nú í nágrenni við öll þessi miklu eldfjöll, er á eldfjallasvæði, þá langar mig í lok ræðu minnar að fara með lítið ljóðbrot eftir Matthías Johannessen. Það heitir Landið.

Landið fylgir okkur

í hvítri skikkju,

en eldgígarnir steyttir

hnefar

mót himni.

Við sváfum

undir heiðum himni

og vöknuðum

inn í ójarðneska

þögn

sáum öræfin koma

til okkar

klædd heiðgulum kyrrlátum

morgni:

í gagnsærri skikkju

kemur gamall himinn til jarðar

og gengur við sólstaf

yfir hraunið.