132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

223. mál
[17:53]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því hv. þingmaður var að ræða um að Landgræðslan, eða þessi stofnun gæti verið með ráðgjöf fyrir aðrar þjóðir, þá vil ég upplýsa að svo er í dag. Ég veit að á milli Íslands og Grænlands t.d. er mjög mikið samstarf í landgræðslumálum. Hér hefur líka verið afar merkilegur maður frá Nýfundnalandi, prófessor, sem hefur verið að rannsaka mikið í kringum Keldur, uppgræðsluna þar og sandvarnargarða sem eru mjög merkilegir. Þeir eru mjög gamlir og voru hlaðnir upp til að varna sandfoki. Það er í rauninni mjög merkileg smíð á þeim görðum. Þetta er allt hlaðið úr grjóti og á þeim eru hlið sem taka við sandinum út aftur þegar breytir um vindátt.

Á bænum mínum á Keldum var mikil barátta við sandfok árum og áratugum saman. Það er til saga um að í einu miklu roki sem gekk yfir Rangárvellina hafi verið alveg sléttfullt af sandi upp á mæni á gamla bænum. En ég vildi bara koma hér og segja frá því að Landgræðslan á mjög gott samstarf við margar þjóðir, sem betur fer.