132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:20]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. En mér finnst samt nauðsynlegt að koma hér með nokkur sjónarmið. Segja má að sumu leyti um efnisatriði þeirrar tillögu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson mælti fyrir, að hún komi of seint en að sumu leyti má segja að hún komi of snemma miðað við aðstæður.

Ljóst er að tillagan byggir á gömlum viðhorfum hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og tillagan er samkvæmt efni sínu viðbragðsáætlun ef það markmið næðist. Að því leyti má segja að breyttar forsendur í viðræðum okkar við Bandaríkin geri það að verkum að tillagan sé í rauninni barn síns tíma og sé úrelt að því leyti eða frá þeim sjónarhóli. Að hinu leytinu má segja að tillagan sé of snemma komin fram og þar af leiðandi ótímabær í ljósi þess að viðræðum okkar við Bandaríkin er ekki lokið. Fyrir liggur yfirlýsing Bandaríkjastjórnar um að taka burtu flugsveitina af Keflavíkurflugvelli eins og fram hefur komið og margsinnis verið rætt. Hins vegar liggur ekki enn þá fyrir með hvaða hætti framhaldi varnarsamningsins verður fyrir komið. Það er auðvitað þess vegna og ekki að tilefnislausu sem íslensk stjórnvöld eiga nú í áframhaldandi viðræðum við Bandaríkin.

Það stafar af því að það er viðhorf, skoðun og sannfæring ríkisstjórnarflokkanna að á skýran hátt þurfi að tryggja hér öruggar og sýnilegar varnir. Fyrir liggur að Bandaríkjastjórn hyggst ekki viðhalda óbreyttu ástandi en það er auðvitað eftir því leitað af hálfu íslenskra stjórnvalda hvernig Bandaríkin muni áfram efna sinn samning, þennan gagnkvæma tvíhliða samning sem hefur verið í gildi frá 1951. Því að Bandaríkjamenn hafa ekki sagt honum upp og það hafa Íslendingar raunar ekki gert heldur. Sú viðbragðsáætlun við brottför Bandaríkjahers af Keflavíkurflugvelli sem tillaga hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerir ráð fyrir, er að því leyti ótímabær, að sú staða er ekki komin upp að varnarstöðin verði lögð niður. Sú staða er ekki komin upp.

Varðandi stöðu þessara mála svona almennt séð get ég sagt fyrir sjálfan mig að yfirlýsing Bandaríkjamanna frá 15. mars olli mér vissulega vonbrigðum vegna þess að ég stóð í þeirri trú að þær viðræður sem íslensk og bandarísk stjórnvöld áttu í gætu leitt til niðurstöðu sem væri annars efnis en þessi yfirlýsing felur í sér. Sú staða er hins vegar uppi. Úr því verða menn að spila og segja má að allir standi vissulega frammi fyrir nýrri stöðu í þessum efnum. Nýrri stöðu sem þarf að takast á við. Nýrri stöðu sem gerir það að verkum að við þurfum að taka ákvarðanir um og meta hvernig við getum sem best tryggt öryggi landsins til frambúðar að því gefnu að þessi breyting verði á fyrirkomulagi varnarsamnings okkar við Bandaríkin.

Ég held að ótímabært sé á þessari stundu að kveða upp úr með hvaða leið verður farin í því sambandi. En ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera ótvírætt samningsmarkmið Íslendinga í þeim viðræðum og markmið stjórnvalda þegar þær leiðir eru skoðaðar að tryggja að hér verði áfram tryggar og öruggar varnir. Þótt heimsmyndin hafi vissulega breyst frá dögum kalda stríðsins þá er ekki svo að allar hugsanlegar ógnir og allar hugsanlegar hættukringumstæður séu fyrir bí. Þær hafa vissulega breyst og breyttum aðstæðum þarf að bregðast við með nýjum hætti.

En ég er ekki þeirrar skoðunar, eins og mér finnst skína í gegn í málflutningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að engin þörf sé á neinum vörnum. Ég verð að segja að mér finnst það viðhorf bæði nú og raunar áður fremur byggjast á óskhyggju en raunhæfu mati á aðstæðum. Það er svo að að mörgu leyti lifum við í ótryggum heimi. Ógnir geta komið upp, ógnir geta komið og farið. Nýjar aðstæður geta skapað nýjar ógnir. Allar þjóðir með einhverjum hætti tryggja varnir sínar. Ég held að Íslendingar séu ekkert undanskildir í þeim efnum. Ég held að mikilvægt sé að við gerum það með skýrum hætti, höfum það að markmiði í viðræðum við Bandaríkin og öðrum viðbrögðum við yfirlýsingunni frá 15. mars, að tryggja hér öruggar varnir enn sem fyrr. Ég hygg að um það sé allvíðtæk samstaða meðal stjórnmálaflokkanna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð sker sig að nokkru leyti úr með að ganga lengra í því að telja að við getum hér ein þjóða lifað án nokkurra varna. En þó verður að segja, af stundum óljósum og misvísandi yfirlýsingum af hálfu Samfylkingarinnar virðist manni stundum af hálfu sumra talsmanna þess flokks að minnsta kosti, þá vaxi þeirri skoðun fylgi að hér sé engin þörf á vörnum. Svo aftur koma aðrir talsmenn og gefa í skyn að nauðsynlegt sé að tryggja varnirnar með einhverjum nýjum hætti eftir brottför flugsveitar varnarliðsins og hafa talað um ýmislegt í því sambandi. Um tíma var vinsælt að tala um varnarsamstarf við Evrópusambandið og svo hefur ýmsum kostum verið velt upp í þeirri stöðu.

Það er því nokkuð óljóst hvort Samfylkingin telur yfir höfuð að einhver þörf sé á ákveðnum og öruggum vörnum hér eða ekki. En aðrir flokkar hygg ég að séu nokkuð eindregið á þeirri skoðun að við verðum að finna einhverjar lausnir á þessum málum. Þegar ekki liggur fyrir niðurstaða hvað það varðar held ég að ótímabært sé að taka undir það sem segir í tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það beri að undirbúa þá stöðu að varnarstöðin verði lögð niður.