132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hefði nú átt von á því að talsmenn Sjálfstæðisflokksins gætu verið sammála þeirri tillögu sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja. Ástæðan er sú að ég fæ ekki betur séð en að flest sem þar stendur sé mjög í þeim anda sem forustumenn Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum hafa talað. Ef hér væri inni þingmaður að nafni Árni Sigfússon ímynda ég mér að hann hefði sprottið úr sæti sínu til að taka undir með hv. flutningsmönnum.

Mér fannst, frú forseti, hv. þm. Birgir Ármannsson tala mjög digurbarkalega þegar hann ræddi stefnu annarra flokka varðandi þá stöðu sem upp er komin. Það virtist vefjast fyrir hv. þingmanni að gera sér grein fyrir stefnu Samfylkingarinnar í málinu sem hann gerði að sérstöku umræðuefni. Stefna Samfylkingarinnar er alveg skýr varðandi varnir Íslands. Hún hefur verið samþykkt á landsfundi flokksins og hún felur í sér í þessu efni tvennt. Í fyrsta lagi að Samfylkingin telur að Ísland eigi að vera innan Atlantshafsbandalagsins og í öðru lagi að æskilegast væri að útfæra varnirnar í samræmi við varnarsamninginn tvíhliða frá 1951.

Nú hafa skipast veður í lofti. Ég held að hv. þingmanni væri sæmst að skoða feril síns eigin formanns og síns eigin flokks í þessu máli. Hv. þingmaður talaði um að markmið Samfylkingarinnar varðandi þessa stöðu sem nú er komin upp sé óskýr. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað Samfylkingin vill gera í þessu efni. Við viljum halda öllum möguleikum opnum, þar á meðal þeim sem felast í tvíhliða varnarsamningnum. En það er alls ekkert gefið þegar upp er staðið að þá sé það nýtilegt plagg sem gagnist okkur með einhverjum hætti til að tryggja varnir Íslands. Það verður einfaldlega að koma í ljós en eins og sakir standa bendir ekkert til þess að í honum sé það hald sem hæstv. ríkisstjórn telur að við þurfum að hafa varðandi varnir og öryggi landsins.

Varðandi hin skýru markmið er það einfaldlega svo að ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að því sem ég kalla alvarlegan dómgreindarbrest. Hún hefur metið stöðuna vitlaust og hún hefur ekki haft skýr samningsmarkmið og ekki heldur þau sem helst hefðu getað þjónað hagsmunum Íslendinga.

Ég vek eftirtekt hv. þingmanns á að hæstv. utanríkisráðherra hefur hopað úr hverju víginu á fætur öðru. Íslendingar undir forustu Sjálfstæðisflokksins héldu fast í það eina samningsmarkmið að hér væru fjórar þotur til staðar. Í samningaviðræðunum sjálfum var hopað úr því vígi niður í hugsanlega tvær þotur. Þegar ljóst var hvert stefndi eftir að ákvörðun Bandaríkjamanna var tilkynnt talaði hæstv. utanríkisráðherra, leiðtogi lífs þessa unga þingmanns, með mjög sérkennilegum hætti. Hann talaði um að Íslendingar yrðu í öllu falli að hafa sýnilegar varnir. Undir það síðasta hafði hann hopað úr því vígi og var farinn að tala um að þeir yrðu að hafa táknrænar varnir.

Gæti hv. þm. Birgir Ármannsson skilgreint það fyrir mér hvers konar táknrænar varnir það eru sem gætu ef í harðbakkann slær tryggt varnir og öryggi Íslands? (Gripið fram í: … úr gúmmíi.) Ég er ekki viss um að hv. þingmaður gæti það. Ég nefni þetta til að sýna fram á að hann er að kasta grjóti úr glerhúsi þegar hann talar um að aðrir flokkar hafi ekki skýr markmið í þessum efnum. Staðreyndin er einfaldlega sú að utanríkisráðherra hefur ekki vitað nákvæmlega hvað hann hefur viljað sjálfur. Hann hefur líka, og sendimenn hans sem ég tel að sé óræddur hlutur í þessari atburðarás allri, metið allar vísbendingar og stöðuna vitlaust.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði 28. nóvember að hann væri mjög vongóður um að staðan yrði lítt breytt. Í febrúarbyrjun eftir að hafa farið á fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna var hann enn mjög bjartsýnn. En á þeim tíma, og það sýnir vinnubrögðin í utanríkisráðuneytinu, lágu fyrir drög að fjárlagafrumvarpi Bandaríkjanna þar sem ekki var veitt króna til herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Það mátti því vera ljóst í hvað stefndi. Hvar var utanríkisráðherra Íslands þá? Hvar voru sendimenn Íslands sem höfðu það hlutverk með höndum að fylgjast með þróun mála þá? Hvernig í ósköpunum gat það gerst að það fór fram hjá heilu ráðuneyti okkar Íslendinga að í fjárlagafrumvarpinu bandaríska var ekki einn dollar, ekki eitt sent, „not a dime“ til að halda áfram starfrækslunni? Á sama tíma var hæstv. utanríkisráðherra hérna brosandi út undir eyru og blár í augunum af ánægju yfir því að góður gangur væri í viðræðunum.

Staðreyndin var einfaldlega sú að það var enginn gangur í viðræðunum. Staðreyndin er sú að hann las rangt öll teiknin og formaður sendinefndarinnar virðist hafa verið staddur á einhverjum allt öðrum hnetti en okkar, hann gerði sér enga grein fyrir því hvað var að gerast. Þetta er ákaflega mikilvægt að menn hafi í huga.

Við höfum tvenns konar meginhagnað og ávinning af þessu samstarfi, þ.e. í fyrsta lagi varnirnar og í öðru lagi samstarfið um hjálparstarfið á höfunum. Bandaríkjamenn hafa skilgreint varnarþörfina töluvert öðruvísi en ýmsir íslenskir stjórnmálamenn. Hv. þingmaður gerði því skóna áðan að að félagi minn, Jóhann Ársælsson, hv. þingmaður úr Samfylkingunni teldi að engra varna væri þörf. Frú forseti, hverjir eru það nú sem hafa talið að það sé engra varna þörf? Það eru Bandaríkjamenn. Þeir segja að hættan á árás annars staðar frá sé ekki lengur fyrir hendi og þess vegna sé ekki þörf á þessum her hér.

Er hv. þm. Birgir Ármannsson sammála því? Eða hefur hann meira vit á hernaðarstöðunni en samanlagður sérfræðingaher Bandaríkjastjórnar? Ég er ekki viss um það, en ef hann segir að svo sé þá trúi ég honum. Það eru stjórnmálamenn úr Sjálfstæðisflokknum sem hafa bent á að í þessari stöðu væri æskilegt að við leituðum sem víðast fanga. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði t.d. um það að við ættum að tala við Dani og við Norðmenn. Ég sjálfur er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða alla kosti í stöðunni. Við eigum að ræða við Dani fyrir hönd Færeyinga og Grænlendinga sem þurfa að tryggja öryggi á stóru hafsvæði sem er erfitt fyrir björgunartæki okkar að ná til. Sömuleiðis Norðmenn, sem eru í vaxandi mæli að fara að nota siglingaleiðina hjá Íslandi vestur um haf til þess að flytja gas sem þeir framleiða á næstu árum og áratugum í miklu meira mæli en núna. Í fjórða lagi eru það Kanadamenn sem augljóslega munu hafa mikilla hagsmuna að gæta varðandi öryggi þarna á hafinu.

Öryggið á hafinu var aldrei samningsmarkmið hjá íslensku ríkisstjórninni. Það var ekki fyrr en í febrúar sem það var fyrst nefnt og það voru alvarleg dómgreindarglöp hjá forustu ríkisstjórnarinnar í málinu. Þegar Landhelgisgæslan lagði fram hugmyndir og kostnaðargreiningu á því hvað þyrfti til að geta tekið yfir öryggisstarfsemina þá hafnaði hæstv. utanríkisráðherra því í útvarpi að tímabært væri að gera slíka úttekt.