132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:56]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kjarninn í máli og mistökum Sjálfstæðisflokksins lágu í því sem hv. þingmaður sagði áðan þegar hann sagði: Það var enginn hvati í umhverfinu fyrir okkur til að fara að leggja fram einhverjar tillögur sem áttu að tryggja varnir og öryggi. Menn sáu ekki hvað var að gerast, lásu vísbendingarnar vitlaust og allir utan Sjálfstæðisflokksins sáu það. Það var öllum ljóst að verulegar breytingar voru í vændum, öllum nema Sjálfstæðisflokknum. Því kalla ég það fyrirhyggjuleysi og dómgreindarbrest af forustu Sjálfstæðisflokksins að hafa stýrt viðræðum með þessum hætti. Það er ekki einu sinni tekið meira mark á Íslendingum en það að þeir vissu ekki af því þegar þeir fengu á skrifborðið hjá sér slíka tillögu frá Bandaríkjamönnum að hinn rólyndi og yfirvegaði formaður sendinefndarinnar rauk út, sem er nú dálítið sérkennilegt diplómatískt bragð, en kannski þekkist það í Sjálfstæðisflokknum, við vinnum ekki þannig í Samfylkingunni. Það sem skiptir máli er að breið samstaða takist um niðurstöðu málsins. Ekki er boðið upp á það af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ef teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um afdrif Íslands til framtíðar sem ekki er breið samstaða um er verið að efna í langvarandi átök. Þess vegna er ég óttasleginn fyrir framgangi sjálfstæðismanna í málinu, ég get ekki sagt annað. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi öllum verið ljóst, nema kannski þeim sem börðu höfðinu við steininn, að þetta var á döfinni. Auðvitað hefði það verið betra af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún hefði brugðist við fyrr og komið með (Forseti hringir.) raunveruleg útspil í samningaviðræðurnar sem hefðu getað leitt til einhverra lykta.