132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

1. fsp.

[15:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka orð hæstv. forsætisráðherra. Hann nefndi ekki eitt embættið, þ.e. dómsmálaráðuneytið og Almannavarnir. Ég fór sjálfur á vettvang á föstudaginn og þó allt væri þar á fullu við erfiðar aðstæður fannst mér að almannavarnaráðið eða það sem tengist almannavörnum hefði átt að vera ræst út. Sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sagði í fréttum í hádeginu í dag að hann hefði ekki talið þess þörf. Ég er ekki sammála.

Ég vil líka benda á að hér eru stórar sumarhúsabyggðir umvafðar þéttum gróðri, kjarri og skógi, og ég spyr hæstv. ráðherra: Er viðbúnaður til að takast á við það ef eldar kæmu upp við slíkar aðstæður í þéttri byggð eins og víða er orðin um landið? Þetta er mikið alvörumál og þessir brunar sýna að við erum ekki viðbúin að taka á móti þeim.