132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

1. fsp.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur upplýst mig um að sýslumaðurinn hafi fylgst með þessum atburðum og fundað með þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli. Auðvitað mun sýslumannsembættið og dómsmálaráðuneytið fara yfir þessi mál og læra af þeirri reynslu sem þarna hefur skapast.

Um það má vissulega alltaf deila hvort nægilegur viðbúnaður sé í landinu til að eiga við svona hluti. Ég býst við að það sé auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki en þrátt fyrir allt fór þarna betur en kannski á horfðist. Það hefur ekki orðið tjón á mannvirkjum. Hér hefur fyrst og fremst orðið mikið tjón á náttúrunni, það er mikill skaði sem þar hefur orðið og mun skaða fuglalíf og fleira. En ég tel að við ættum að geta verið sammála um það, ég og hv. fyrirspyrjandi, að við þurfum að fara yfir þessi mál og læra af þessari reynslu og mér finnst ekki meira um það að segja á þessu stigi.