132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

1. fsp.

[15:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel undir þau sjónarmið og áherslur sem ég lagði fram. Ég tel samt að að ganga eigi formlega til verks og kalla saman þá stjórnsýsluaðila sem hæstv. forsætisráðherra nefndi og auk þess dómsmálaráðuneytið sem fer almannavarnamál, landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið og síðan heimamenn og sveitarstjórn, sveitarstjórn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, og að sjálfsögðu eigi að fara yfir það mál þar.

Engu að síður tel ég líka afar brýnt að unnin verði viðbragðsáætlun á landsvísu um það hvernig brugðist skuli við, hvaða aðila skuli kalla saman skilyrðislaust þegar slíka vá ber að höndum, og eftir því sem föng eru á að vera með viðbragðskerfi til að takast á við slíka vá eins og svona mikla elda, ég nefni t.d. eins og ég gerði áðan ef eldar koma upp í stórum sumarhúsahverfum, og hvaða viðbúnaður sé þar til.