132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

2. fsp.

[15:12]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja þessara spurninga sem skipta auðvitað gríðarlega miklu máli og setja í samhengi við það sem við höfum verið að gera. Við höfum staðið fyrir rannsóknum á hrefnu undanfarin þrjú ár og þær bráðabirgðarannsóknir sem kynntar voru núna, eins og hv. þingmaður nefndi, sýna að í fæðu hrefnunnar er meira hlutfall af nytjastofnum, sérstaklega þorski, en menn höfðu áður talið.

Þetta segir okkur að til að geta byggt upp veiðistofn eins og þorskinn þurfum við að stunda hvalveiðar því það er augljóst að hvalurinn, og sérstaklega hrefnan í þessu tilviki, er í beinni samkeppni við okkur um þennan nytjastofn. Það er enn fremur alveg ljóst, þó að taka beri fram að er hér er um bráðabirgðaniðurstöður að ræða og að auðvitað verði að slá tiltekna varnagla, að þorskurinn er umtalsverður hluti af fæðubúskap hrefnunnar og hrefnunni hefur fjölgað á undanförnum árum á hafsvæði okkar og hefur þess vegna augljóslega haft heilmikil áhrif á stöðu nytjastofna okkar. Að mínu mati er því um tómt mál að tala að okkur takist að byggja upp nytjastofn eins og þorskinn nema við stundum hvalveiðar jafnframt. Hvalurinn er einfaldlega svo stórtækur á þessu sviði að ef við tökum þá ákvörðun að hætta hvalveiðum varanlega mun það hafa varanleg áhrif á uppbyggingu nytjastofna okkar og þar með lífskjörin hjá þjóðinni. Ég dreg því þann lærdóm af þessu öllu að við eigum engan kost sem ábyrg fiskveiðiþjóð annan en þann að hefja hvalveiðar og halda áfram hvalveiðum. Ekki hefur verið tekin endanleg pólitísk ákvörðun um hvenær við hefjum atvinnuhvalveiðar en við munum halda áfram vísindaveiðunum, við þurfum að ljúka þeim, og ég tel raunhæft að ljúka rannsóknum varðandi hrefnuna á næstu tveimur árum, þ.e. þessu ári og því næsta.