132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

2. fsp.

[15:14]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann talar um að við séum fiskveiðiþjóð eins og við öll vitum og þurfum að vera ábyrg í þeim efnum. Það liggur hreint og klárt fyrir, miðað við þessar bráðabirgðaniðurstöður, að hvalurinn tekur meira til sín af þorski og öðrum botnfiskum en við höfum kannski áður áætlað. Við þurfum að sýna ábyrgð í þessu máli og ég held að við Íslendingar höfum gert það með því að stunda vísindaveiðar og reyna að vinna þær með eins málefnalegum og vísindalegum hætti og hægt er. Ég fagna því að við höldum því áfram. Það verður fróðlegt að sjá hverjar lokaniðurstöðurnar verða en eðli málsins samkvæmt liggur það fyrir, eins og kom fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, að ef niðurstöðurnar verða í þessa veru og við ætlum að sýna ábyrgð þá verðum við líka að veiða hval til að halda jafnvægi í lífríkinu.