132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

3. fsp.

[15:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel að engin mál séu í uppnámi. Það þarf bara svolítinn tíma til að menn átti sig á góðum málum. Það er nú þannig.

En af því að hv. þingmaður sagði að ekki ætti að blanda saman byggðamálum og málum annarra stofnana þá er ég algjörlega ósammála honum. Það er þannig að byggðamál eru mjög víðtæk. Þau koma við sögu í mörgum stofnunum og í mörgum ráðuneytum. Með því að sameina þær stofnanir sem hér um ræðir tel ég að við náum heilmikilli hagræðingu og getum farið betur með fjármuni ríkisins. Þar að auki getum við náð meiri árangri með því að það sé ein atvinnuþróunarstefna í landinu, vissulega með sérstakri áherslu á byggðamál. En þetta er nú ekki þannig að við getum skipt landi okkar algjörlega upp í tvær einingar, annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggð. Það er einmitt mikilvægt að við hættum að greina svo ákveðið þar á milli og náum meiri árangri með því að samþætta atvinnuþróunarmál á landinu öllu.