132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

4. fsp.

[15:28]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Já, landið er „inn“ og landið er í tísku. Búskaparhættir eru á margan hátt breyttir. Fyrir örfáum árum var erfitt að selja jarðir víða um land. Nú er það miklu auðveldara og mikill áhugi almennings á að eignast jarðarpart, eiga gróðurreit í náttúrunni og þeirri þróun fagna ég.

Hins vegar er það svo í öllum breytingum að af stað fer ný þróun og það á við um þróunina sem hv. þingmaður minnist á, að ákveðnir eignamenn fara í raðuppkaup á jörðum í einhverjum skilgreindum tilgangi, ýmist til búskapar eða annarra nytja. Þetta veldur áhyggjum í ýmsum byggðarlögum. Ég varð þess var að búnaðarþing ályktaði um þetta mál og telur mikilvægt að fara yfir hvaða þróun er þar í gangi. Undir það hef ég tekið.

Viðskiptafrelsið má ekki bitna á mikilvægum gildum, eins og hv. þingmaður vitnaði til orða minna. Þess vegna er mikilvægt að fara yfir það. Þar geta hin norsku og dönsku lög verið til hliðsjónar, þess vegna, en þar segir, það sem var áður í jarðalögum, að eigninni verði að fylgja viss búsetuskilyrði o.s.frv. Þetta er verkefni sem ég vil og er að skoða í ráðuneyti mínu með Bændasamtökunum. Ég mun auðvitað bæði ræða við landbúnaðarnefnd og þingið. Við þurfum að fara yfir þessar breytingar. Þær ógna svolítið stöðu landbúnaðarins og mönnum finnst að þar fari vissir aðilar offari. En þetta þarf að skoða vel.