132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum.

[15:34]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst að ég hafi talað sæmilega skýrt, enda skýrmæltur og svo sem ekki hægt að fara lengra í þeim efnum. Það má ekki bara tala um að málið hafi skuggalegar hliðar því að margir þeirra sem eignast jarðir, sem sjá það sem fjárfestingu, reka þar öflugan búskap og sjá ný tækifæri í byggðunum, án þess að ákveðin fyrirtæki hafi verið nefnd á nafn í þessari umræðu. Við skulum ekki fordæma það.

Við þurfum að fara yfir mörg atriði í nýrri þróun sveitanna sem er jákvætt. Það þarf að athuga með hina tvöföldu búsetu út frá sveitarstjórnarmálum. Margir hafa áhuga á að geta stundað tvöfalda búsetu, verið hálft árið úti á landi og hálft árið í þéttbýlinu. Þessu þurfum við að mæta. Við þurfum að huga að mörgu og þess vegna verða nýju jarðalögin að vera opin og til endurskoðunar. Það finnst mér sjálfsagður hlutur.