132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:04]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingu, frá sjávarútvegsnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

Í frumvarpi þessu er lagt til að fallið verði frá sérreglum varðandi úthlutun á 3.000 lestum af þorski skv. 9. gr. a laganna og fiskiskipum sem þessarar úthlutunar hafa notið verði í staðinn úthlutað aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2006/2007 samkvæmt nánar tiltekinni reiknireglu í ákvæði til bráðabirgða.

Nefndin er sammála því að umræddri úthlutun verði breytt í aflahlutdeild en leggur til að reiknireglunni verði breytt þannig að í stað þess að miða eingöngu við það meðaltal sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, þá verði einnig litið til þess hversu mikið hver réttur gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips og sá kostur valinn sem meira gefur í aflahlutdeild. Þetta val leiði hins vegar ekki til aukins heildaraflamagns þorsks sem ráðstafað er til þessarar sérstöku úthlutunar.

Með tilliti til framanritaðs leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007 skal úthluta aflahlutdeild í þorski þeim fiskiskipum sem réttur skv. 9. gr. a er bundinn við þegar lögin taka gildi. Reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal vera hvort sem hærra reynist; aflamark, sem úthlutun á grundvelli viðkomandi réttar gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips eða aflamark sem er meðaltal þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum. Þó skal skerða reiknigrunn hvers úthlutunarréttar hlutfallslega þannig að heildarreiknigrunnurinn verði ekki hærri en meðaltal úthlutana fyrrgreindra fiskveiðiára að teknu tilliti til lækkunar leyfilegs heildarafla þorsks milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Aflahlutdeild hvers fiskiskips skal síðan reiknuð út frá reiknigrunni sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski. Að lokinni þessari úthlutun skal aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun leiðir. Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa.“

Jón Bjarnason áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Jóhann Ársælsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit þetta skrifa auk mín hv. þm. Magnús Stefánsson, Kjartan Ólafsson, Einar Oddur Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir. Hv. þm. Kristján L. Möller og Jón Gunnarsson skrifa undir með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp um ráðstöfun á svokölluðum 3 þús. tonna potti af óslægðum þorski sem nú er gerður að varanlegum aflaheimildum. Þessi pottur hefur verið óbreyttur í tonnafjölda án tillits til úthlutunar þorskveiðiheimilda hverju sinni. Samkvæmt frumvarpinu verður miðað við heildarhlutfall leyfilegs aflamarks í þorski, sem var á fiskveiðiárinu 1999/2000 250 þús. lestir en er á þessu fiskveiðiári 198 þús. lestir. Það er lækkun upp á rúm 20%. Við erum að ræða um að 8,4 tonnin af slægðum þorski verði varanlega 6,628 lestir af slægðum þorski en þetta hámark breytist við þá breytingartillögu sem nú er til umræðu.

Í meðförum sjávarútvegsnefndar kom í ljós að grunnúthlutun á þorski er mjög sterk samkvæmt lögum. Hugsanlega hefði getað skapast skaðabótaskylda sem gæti haft áhrif á úthlutunina samkvæmt upphaflegu frumvarpi. Í stað þess að breyta frumvarpinu þannig að eingöngu verði farið eftir grunnúthlutun var tekin sú afstaða í sjávarútvegsnefnd að hafa báðar leiðir inni, þ.e. að miða við heildarhlutfall leyfilegs aflamarks í þorski sem var á fiskveiðiárinu 1999/2000 250 þús. lestir en er á þessu fiskveiðiári 198 þús. lestir. Eins og áður er getið verður tekið tillit til grunnúthlutunar en síðan verði betri leiðin valin og farin hjá hverjum aðila fyrir sig.

Ef við skoðum hvernig þessar tölur verða til þá verða 3.000 tonnin niðurfærð miðað við árið 2000, sem eru 250 þús. tonn. Í ár er úthlutað 198 þús. tonnum þannig að þau eru niðurfærð og verða 2.376 tonn. Síðan eru 68 tonn í viðbót, sem eru viðbót frá 1997–1999 vegna sölu og breytinga á bátum. Þá förum við í 2.444 tonn. Séu þessi 2.444 tonn slægð erum við með 2.053 tonn.

Ef við förum betri leiðina hjá báðum aðilum, þ.e. annars vegar grunninn og hins vegar þessi sjö ár sem um ræðir, þá fáum við út 2.331 tonn. Því þurfum við að niðurfæra betri leiðina og taka 88,037% af því. Þá fáum við út 2.053 tonn. Þetta er eins og við sjáum mjög ásættanleg leið.

Ef við skoðum að meðaltali eins til sjö ára grunninn og betri leiðina sem er valin þá er mismunurinn 12 tonn upp hjá LS-bátum og 3 tonn niður hjá LÍÚ-bátum. Þetta er mjög nálægt því sem menn gætu verið sáttir við.

Í stað þess að varanlegar aflaheimildir verði 6,628 tonn verða þær 5,856 lestir, það eru 88,037% eins og ég ræddi um áðan. Hér er ásættanleg millilending að mínu mati en jafnframt mikilvægt að ljúka þessu máli. Almenn sátt var í sjávarútvegsnefnd í umræðu um þetta mál og mjög góð og málefnaleg umræða fór þar fram.

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda kom fram, með leyfi forseta:

„Það ákvæði sem hefur verið kynnt mun leiða til mikilla breytinga á frumvarpinu, þ.e. hverjir muni njóta varanlegra veiðiheimilda með afnámi sérúthlutunar í þorski sem kveðið er á um … Í drögum að nýjum texta frumvarpsins er gert ráð fyrir að fallið verði frá því að veiðirétti sem myndast við hlutdeildartengingu verði úthlutað í hlutfalli við það sem viðkomandi fékk í sinn hlut á tímabilinu 1999/2000–2005/2006. Það leiðir til þess að 40 aðilum sem ekki hafa uppfyllt eftirfarandi skilyrði til úthlutunar verður nú úthlutað samkvæmt grunnréttindum. Þar af eru 10 sem fá full réttindi en þeir voru með þorskígildi umfram 450 á tímabilinu, 2 fá nánast full réttindi en þeir höfðu ekki þorsk í sínum veiðiheimildum á tímabilinu. Réttur þeirra 28 sem þar standa eftir er afar rýr, en þeir voru flestir án veiðiheimilda í þorski á viðmiðunartímabilinu.

LS ítrekar þá skoðun sína að rétturinn sem hér um ræðir eigi að ganga til þeirra sem fengu honum úthlutað á viðmiðunartímabilinu. LS hefur þó skilning á að gera þurfi breytingar á frumvarpinu stangist það óbreytt á við lög og skapi ríkissjóði þannig skaðabótaskyldu sem gæti leitt til enn meiri skerðingar hjá umbjóðendum LS.

LS furðar sig hins vegar á því að slíkar breytingar sé ekki hægt að gera á annan hátt en viðurkenna full réttindi á þá aðila sem áttu samkvæmt upphaflegu markmiði þessa ákvæði ekki tilkall til þessara veiðiheimilda, þ.e. þeirra sem höfðu veiðiheimildir umfram 450 þorskígildi og engar þorskveiðiheimildir.

Ákvæðið var lögfest í framhaldi af ábendingum LS og var ætlað að styrkja smáar útgerðir sem höfðu nánast allar sínar veiðiheimildir í þorski og höfðu þannig orðið fyrir veiðiheimildaskerðingu umfram aðra útgerðarflokka.“

Sjávarútvegsnefnd kynnti LS og LÍÚ þessar breytingar sérstaklega. Við teljum að frumvarpið hefði að óbreyttu skapað ríkissjóði skaðabótaskyldu.

Virðulegi forseti. Hér er verið að einfalda og skerpa enn frekar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Því er þessi breyting mjög mikilvæg. Í áranna rás hefur alltaf verið tekið tillit til þessara heimilda og þær verið dregnar frá leyfilegu heildaraflamarki í þorski á grundvelli aflahlutdeildar. Því hefur þetta ekki áhrif á þorskveiðiaflaheimildir einstakra fiskiskipa þar sem þessi sérstaka úthlutun hefur ávallt verið dregin frá leyfilegum heildarafla.

Hér eftir verður þessi pottur sameinaður í heildarúthlutun á varanlegu aflamarki. Mikil óvissa hefur ríkt hjá þeim sem hafa haft þennan rétt en hámarksúthlutun til hvers skips hefur verið 10 tonn af óslægðum þorski, sem svarar til 8,4 tonna af slægðum þorski. Við höfum séð að skip hafa verið auglýst til sölu með þessum heimildum en markaðsverð hefur miðast við 50%.

Aflaheimildum samkvæmt 9. gr. a hefur verið úthlutað árlega síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu áttu 497 fiskiskip í upphafi rétt til úthlutunar og þar af voru 234 fiskiskip með hámarksúthlutun en aðrir með minna. Úthlutunarréttur hefur ekki breyst í fjölda en hefur tekið breytingum á milli fiskveiðiára, þ.e. hvernig úthlutunin skiptist á milli fiskiskipa. Af þessum 497 „úthlutunarréttum“ hafa 40 aldrei gefið úthlutun. Helstu skýringar eru þær að annaðhvort hefur viðkomandi skip ekki verið með aflaheimild í þorski eða aflaheimildir viðkomandi skips hafa farið yfir 450 þorskígildislestir en það er hámark sem miðað hefur verið við. Með breytingunni sem lögð er til er ljóst að þeir aðilar, sem ekki hafa getað nýtt sér veiðiréttinn eins og að ofan er getið, munu fá grunnúthlutun sína metna að hluta. Skýringin er sú að lagalegar forsendur og réttur er að öllum líkindum til staðar en úthlutunin verður aldrei hærri en 88,037% af útreiknuðum grunni eða að meðaltali síðastliðinna sjö ára eins og frumvarpið gerði ráð fyrir í upphafi.

Sjávarútvegsráðherra hefur heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa. Það er ljóst að að lokinni þessari úthlutun mun aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð að teknu tilliti til breytinganna.

Virðulegi forseti. Þessi sérstaka úthlutun hefur ekki breyst þrátt fyrir breytingar á aflahlutdeild á milli ára. Það er meira jafnræði að leggja þennan 3 þús. tonna pott af og gera hann að varanlegum aflaheimildum. Það hefur verið mikil óvissa hjá þeim aðilum sem hafa fengið þessa úthlutun en með þessari breytingu er búið að eyða henni.

Í umsögn um frumvarpið segir Farmanna- og fiskimannasambandið að það styðji frumvarpið en vilji í leiðinni nota tækifærið til að ítreka áskorun til þingmanna um að koma á koppinn aukinni veiðiskyldu og draga þannig úr eða helst koma alfarið í veg fyrir undirrótina að stórum hluta þess misréttis sem á sér stað innan greinarinnar, sem sé hið óhefta leiguframsal innan fiskveiðiársins.

Hafrannsóknastofnun hafði engar athugasemdir við frumvarpið.

LÍÚ segir:

„Í athugasemdum með lagafrumvarpinu er því vel lýst hvaða óhagræði núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér og þess vegna fögnum við því að tekið skuli á málinu. Við teljum hins vegar að betra væri að koma til móts við þá sem rétt eiga samkvæmt umræddu lagaákvæði með því að aflétta því skilyrði að úthlutun leiði ekki til meiri heildaraflaheimilda en 450 þorskígildislesta og að heimilt verði að sameina „rétti“ samkvæmt ákvæðinu þannig að úthlutun á einstakan bát geti orðið meiri en 10 lestir miðað við óslægðan fisk í slíkum tilvikum.“

Ég hef gert grein fyrir áliti LS eftir breytingarnar. En á aðalfundi þeirra ályktuðu þeir um jöfnunarsjóð. Ályktunin var svohljóðandi:

„Aðalfundur LS skorar á sjávarútvegsráðherra að veiðiheimildum til jöfnunar verði úthlutað varanlega til þeirra sem nú hafa þegar jöfnunarúthlutunina.“

Sjómannasamband Íslands telur löngu tímabært að afnema þá sérúthlutun á þorski sem felst í 9. gr. a í lögunum um stjórn fiskveiða.

Vélstjórafélag Íslands hefur ekki athugasemdir við frumvarpið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði þessu frumvarpi vísað til 3. umr.