132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þótt það flýti almennt fyrir þingstörfum að koma máli fljótt frá sér fannst mér hv. þingmaður vera ansi fljótmæltur í ræðu sinni. Ég hefði mjög gjarnan viljað ná sem mestu af því sem hv. þingmaður sagði en sumu náði ég ekki, m.a. vegna kliðs í þingsalnum á meðan menn voru að ganga um o.s.frv.

Ég ætla hins vegar að koma hér með smáathugasemd, hæstv. forseti. Það er í rauninni út af nefndarálitinu eins og það er uppsett því að breytingartillagan í nefndarálitinu, sem er meginefnisatriði málsins, er auðvitað framsetning á reiknireglu. Framsetning á því hvernig finna eigi út ákveðna hluti, hvernig þeir eigi að koma til úthlutunar hjá hverjum og einum og hvaða endurreikningur á síðan að fara fram á heildaraflamarkinu þegar því er lokið. Ég sakna þess í nefndarálitinu, af því það er nærri því þrjár auðar blaðsíður, að þar hafi ekki verið sett inn eitt, tvö eða þrjú dæmi þar sem menn hefðu gefið sér skip sem hefði haft þessar heimildir um eitthvert árabil og veitt upp í þær eða nýtt o.s.frv. og miðað við heildarútflutning hvers árs þar sem dæmi hefðu verið sýnd hvaða áhrif verða af þeirri breytingu sem lögð er hér til í breytingartillögunni.

Nú kann að vera að hv. þingmaður, framsögumaður sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson, hafi vikið að slíku dæmi áðan, en ég hef þá ekki heyrt það nægilega, hæstv. forseti.