132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:23]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér um að úthluta jöfnunarpotti sem hefur verið til staðar í mörg ár. Við erum að eyða óvissu og færa þessa úthlutun yfir í varanlegar aflaheimildir. Ég held að þetta bæti hag sjávarbyggða og ég held að margir smábátaeigendur sem hafa lifað við þessa óvissu séu mjög sáttir við að fá þetta varanlega. Það er ljóst að í ályktun aðalfundar Landssambands smábátaeigenda er sjávarútvegsráðherra hvattur til að gera þetta varanlegt. Ég tel því að þetta sé hið besta byggðamál og gott að fyrir menn að vita hvað þeir hafa. Það hefur verið óvissa í þessu. Við vitum líka að þegar bátar í þessu kerfi, í þessum potti, hafa verið auglýstir til sölu hefur það verið á 50% verði.

Varðandi nýliðun vitna ég í það sem ég hef áður sagt. Ég tel langtum meiri möguleika á nýliðun í þessu aflamarkskerfi núna, í krókaaflamarkinu, heldur en var í sóknardagakerfinu. Við vorum með dæmi um það frá aðilum sem störfuðu í þessu kerfi að það væri mjög erfitt að fá bankakerfið með sér í fjármögnun varðandi kaup á bátum og aflaheimildum. Ég tel að þetta kerfi bjóði meira upp á nýliðun en annað.