132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála hv. þingmanni. Það er verið að úthluta einhverjum pottum og einhverju og einhverju til einhverra úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er ekkert verið að taka á vandamálunum í sjávarútvegi, alls ekki.

Hv. þingmaður heldur því fram að verið sé að rétta hag sjávarbyggðanna að einhverju leyti. Hvernig er verið að rétta hag t.d. Bíldudals með þessu frumvarpi? Hvernig væri að hv. þingmaður færi yfir það með okkur? Ég tel að þetta geri það alls ekki heldur festi miklu frekar í sessi vont kerfi sem hefur veitt þessu byggðarlagi mjög þungt högg og fleiri sjávarbyggðum kringum landið. Mér finnst í rauninni algjört öfugmæli að halda því fram að þetta sé einhver byggðaaðgerð. Menn ættu að skammast sín fyrir að vera með slíkan málflutning, frú forseti, að halda einhverju fram sem er algerlega úr takti við raunveruleikann og gera það alveg blákalt frammi fyrir alþjóð og í þinginu.

En varðandi hitt að þetta tryggi nýliðun. Hvað kallaði hv. þingmaður sér þar til vitnis? Jú, hann vitnaði í sjálfan sig. Hann vitnaði í að hann hefði sjálfur komist að því að þetta væri gott til nýliðunar. Þar vitnaði hann í sjálfan sig og komst að því enn og aftur með því að spyrja sjálfan sig að þetta væri mjög gott fyrir nýliðun. Þetta er náttúrlega algjör rökleysa hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar og hann ætti að sjá sóma sinn í að koma hér með einhver haldbær rök í stað þess að vitna í sjálfan sig máli sínu til stuðnings.