132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:26]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil náttúrlega að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, sé ósáttur við þetta. Það er verið að festa okkar kerfi enn í sessi og gera þetta að varanlegum heimildum. (Gripið fram í: Hvernig kemur það á Bíldudal?) Ég vitnaði ekkert í sjálfan mig. Ég sagði að þeir aðilar sem komu á fund sjávarútvegsnefndar og ræddu við okkur þegar við lögðum af sóknardagakerfið töldu langtum meiri möguleika á nýliðun með því að færa þetta yfir í varanlegar aflaheimildir. Það var það sem gerðist. Einu breytingarnar sem við erum að gera eru á þessum 3.000 tonna potti, sem hefur ekkert breyst þrátt fyrir breytingar árið 2000 þegar heildaraflamarkið var 250 þús. tonn og fer niður í 180 þús. tonn. Þess vegna er það niðurfært og breytingin liggur í því að þessi 8,4 tonn verða mest 5,6 í slægðum fiski. Það er breytingin og það er eðlilegt þannig að menn eru ekki að taka af öðrum.