132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að leggja niður jöfnunarpott sem á sínum tíma var settur á til að auka möguleika þeirra sem minni aflaheimildir höfðu. Hann átti að gilda jafnt í báðum kerfum, ef maður getur sagt sem svo, þ.e. veiðikerfi smærri bátanna og þeirra stærri, en miðaðist þó að hámarki við 200 brúttórúmlesta skip með 450 þorskígildistonn. Auk þessa voru sett skilyrði um að skip skyldu hafa heimildir í þorski til að fá að taka við þessari úthlutun, hinni sérstöku úthlutun úr 3 þús. tonna jöfnunarpottinum.

Hér er úthlutunin fest inn í kvótalögin. Að vísu var búið að setja lög áður um að þessi pottur skyldi verða varanlegur en ekki bráðabirgðaákvæði á hverju ári. Núna á að gera varanlegan þennan jöfnunarpott sem gekk stundum undir því óvirðulega nafni „aumingjabætur“. Það er varla réttnefni en byggðist á því að heimildirnar gengu til þeirra sem höfðu minni aflaheimildir. Ég tel að það hafi í raun verið réttlætanlegt á sínum tíma að setja upp þennan pott, miðað við kvótakerfið sem við höfum búið við undanfarin ár. En eins og flestir vita hef ég haft margt við kerfið að athuga og tel að við höfum ekki þróað okkur í rétta átt með því kerfi og því að bæta sífellt fleiri fisktegundum inn í kvótakerfið, sem hafa gert það erfiðara í framkvæmd og snúnara að vinna í. Auk þess hefur kerfið mikinn galla, þ.e. að sífellt hærri fjárupphæðir þarf við að komast inn í kvótakerfið, ná sér í aflaheimildir til að geta gert út fiskiskip. Ég tel það almennt mjög neikvætt fyrir kerfið hve háir þeir þröskuldar eru sem þarf að komast yfir til að einstaklingar sem hafa áhuga fyrir að koma sér fyrir í sjávarútvegi geti komist inn í fiskveiðikerfið og inn í útgerðina.

Það var a.m.k. svo og er, hygg ég, enn, að áræði og dugnað þurfti til að stunda fiskveiðar. Menn þurfa að sinna því starfi vel að róa til fiskjar ef árangur á að nást. Menn þurfa að vera útsjónarsamir við að sækja sjóinn. Ég hygg að það hafi ekki breyst en margur maðurinn með alla þessa eiginleika, að geta sótt sjó af krafti, sem hefur til þess hæfileika, þekkingu og jafnvel langa reynslu, á ekki jafnauðvelt með það og oft var áður að komast í útgerð, kaupa sér bát, hefja róðra og byggjast upp á eigin dugnaði, jafnvel þótt þeir ættu ekki í handraðanum mikla fjármuni eða hefðu ekki aðgang að miklu fjármagni.

Nú er hins vegar málum þannig háttað, hæstv. forseti, að þótt menn geti nálgast mikla fjármuni til að komast inn í þessa grein þá er rekstrardæmið nánast vonlaust vegna þeirrar skuldsetningar sem menn þurfa að baka sér til að komast inn í greinina. Ég tel að það neikvæða við þessa gjörð, með tilliti til kvótakerfisins, byggðaþróunar í landinu og nauðsynjarinnar á endurnýjun í útgerðinni og því að menn eigi tiltölulega greiðan aðgang að því að komast inn í þessar atvinnugreinar, sé að í raun er ekki verið að styrkja að þeir hæfustu komist inn í atvinnugreinina nema svo ólíklega vilji til að þeir hafi fæðst með gullskeið í munni og eigi miklar eignir til þess að komast þar að. Það tel ég misráðið. Það er ekkert samasemmerki á milli þess að vera fæddur með gullskeið í munni og þess að ná árangri við fiskveiðar eða að gera út. Það held ég að við getum séð af útgerðarsögu landsins að margur maðurinn hefur orðið góður útgerðarmaður og fiskiskipstjóri, unnið byggðarlagi sínu vel og verið kjölfestan í byggðarlaginu, vegna hæfileika og dugnaðar til að stunda fiskveiðar og sjóróðra frá sjávarbyggð. Þannig er því ekki lengur farið, hæstv. forseti.

Hér er einn potturinn sem hugsanlega nýttist þeim sem minni aflaheimildir höfðu gerður að varanlegri aflahlutdeild. Ég hef stundum orðað það svo, hæstv. forseti, og notaði örugglega þau orð þegar var verið að kvótasetja þorsk, ýsu, ufsa, steinbít, keilu, löngu og fleiri fisktegundir í smábátakerfinu, að það væri verið að hengja upp gulrót fyrir smábátaeigendurna, gulrót verðmætisins þar sem menn færu að horfa á hvað þeir gætu fengið fyrir aflaheimildirnar sem þeir hefðu fengið úthlutað í stað þess að þeir þurfi að sækja sjóinn til að veiða þessar tegundir og gera úr þeim verðmæti. Áður varð fiskurinn þá fyrst verðmæti er hann var fluttur til hafnar, sem var hvatinn til þess að menn sóttu sjóinn eins og þeir höfðu leyfi. Það varð til þess að fólk hafði atvinnu af þeirra starfsemi í landi. Fólkið sem þar bjó naut þess saman sem lítið samfélag í sjávarútvegsbyggð að hafa hag af atvinnu eins, tveggja eða fleiri manna sem sóttu sjó eða gerðu út skip.

Ég hef ævinlega talið það misráðið, hæstv. forseti, að fjölga kvótabundnum fisktegundum í fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Í fyrsta lagi þjónar það ekki atvinnuhagsmunum fólks í landinu og byggðarhagsmunum. Í öðru lagi er ekki hægt að sýna fram á að það hafi neitt hagrænt gildi fyrir útveginn að setja kerfin of stíft upp að þessu leyti, miklu frekar á hinn veginn. Þótt menn væru með kvóta í einni aðalfisktegund þá væri litið á annan afla sem meðafla, eða afla sem menn gætu sótt í til að byggja upp útgerð. Þannig var það framan af. Við sáum að þegar smábátakerfið var kvótasett þá byrjaði strax samþjöppun aflaheimilda og mönnum fækkaði í greininni. Sama gerðist, hæstv. forseti, þegar kom að því verki sem síðast var unnið, sem ég tel að hafi verið mjög mikið óhæfuverk og kem betur að því í næsta máli sem við tökum til umræðu, að kvótasetja handfærabátana.

Við að setja þessar aflaheimildir inn í kvótakerfið eins og það er, og gera aflaheimildirnar að fullu framseljanlegar til allra, ekki bara í leiguformi heldur varanlega aflahlutdeild, er auðvitað sett af stað nýtt verslunardæmi í kvótanum. Aðgangur manna að hinni sérstöku úthlutun er ekki lengur fyrir hendi, ólíkt því sem var áður ef menn höfðu aflaheimildir undir 450 tonnum og skipið var undir 200 lestum. Ég tel að þetta veiki enn frekar innkomu manna í útgerð.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls að menn þyrftu að huga vel að lagaþættinum í þessu. Ég sé að menn hafa gert það að nokkru leyti, en tek hins vegar undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem hér talaði áðan. Menn hefðu kannski getað gefið sér meiri tíma til að vinna þetta mál. Það er mánuður síðan málið fór út úr sjávarútvegsnefnd en við erum fyrst að ræða það í dag. Það hefði því ekkert skaðað málið þó að menn hefðu skoðað gaumgæfilega þær breytingartillögur sem hér hafa verið kynntar af hv. framsögumanni, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, um hvernig að þessu skuli staðið með tilliti til þess hver eigi að fá og hvaða áhrif það hafi á heildarúthlutun á þorski fyrir hvert fiskveiðiár í framtíðinni.

Þetta vildi ég nú sagt hafa, hæstv. forseti, án þess að ég ætli að lengja mál mitt sérstaklega um þessa gjörð. Ég tel sem sagt að niðurstaðan af þessari lagasetningu sé sú að þrengra verði um fyrir þá sem minni aflaheimildir hafa að komast í betri stöðu innan núverandi kvótakerfis. Ég tel að í framtíðinni þurfi að reiða fram meiri fjármuni vegna þessarar lagasetningar en áður var. Við vitum jú að þær aflaheimildir sem áður var úthlutað samkvæmt þessum bótaflokki gengu á öðru verði en aðrar aflaheimildir, þ.e. voru á lægra verði en almennt er.

Niðurstaða mín er sú að við auðveldum mönnum ekki innkomu í útgerðina og stuðlum ekki að því að þeir sem minni aflaheimildir hafa hafi betri stöðu í rekstri. Eftir þetta verða þessar heimildir varanlegar og standa þá ekki þeim til boða sem e.t.v. hyggjast kaupa útgerð sem á litlar aflaheimildir. Útkoman úr þessu er því miður sú að þröskuldarnir verða hærri til að komast inn og það verður erfiðara að komast inn í kerfið.

Ég mun ræða almennt og miklu betur um sjávarútvegsmál í næsta máli á dagskrá. Þar erum við að taka á afleiðingunum af kvótasetningu í smábátakerfinu og er sjálfsagt að fara gaumgæfilega yfir það sem fylgt hefur þeirri aðgerð, sem er auðvitað meira mál en það sem hér er verið að gera og hefur haft víðtækari afleiðingar, að mínu viti í neikvæðar áttir, fyrir þróun byggðar í landi og atvinnu í sjávarplássum umhverfis landið en breytingin sem verður með þessu máli, þótt ég telji hana ekki til bóta. Ég tel málið ekki til bóta að því leyti að það verður erfiðara fyrir einstaklinga að komast inn í útgerðina. Þeim mun ekki standa þessi úthlutun til boða þótt þeir hafi aflaheimildir undir viðmiðunarmörkum þeim sem voru í lögunum. Þetta verður varanleg aflahlutdeild skipa. En eins og allir vita hefur kvótaverð hækkað mikið hér á landi og það eru afar erfitt fyrir venjulegt fólk að komast inn í útgerð og til að vera með atvinnurekstur. Sárafáar fisktegundir eru utan kvótakerfisins og þar af leiðandi lítið frjálsræði til að komast inn í greinina, hæstv. forseti.

Ég tel að allar greinar sem loka sig af, eins og er að gerast í útveginum, beri í sér ákveðna feigð. Þegar fram líður getur greinin misst af hæfileikaríkasta og duglegasta fólkinu vegna þess að það nennir ekki að hafa fyrir því að troða sér inn í svona greinar. Það leitar í annað. Meðan við höfum ekki eitthvað annað, eins og sagt er, til þess að byggja undir sjávarbyggðirnar þá er mjög varhugavert að veikja stöðu þeirra byggða.

Íslendingar vonast til að nýjar atvinnugreinar verði til, að ferðamennskan aukist o.s.frv. En varla munum við reisa álver í hverju þorpi, hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég sakna þess reyndar, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin skuli ekki mynda sér stefnu í álversframkvæmdum hér á landi. Ég tel ekki að auðhringir eigi að ráða því hvar álver skuli sett niður og hve stór þau eiga að vera. Ef það var hægt að reka álver með 60 þús. tonna framleiðslu í Hvalfirði með hagnaði, og það jafnvel miklum hagnaði, þá er engin nauðsyn á að heimila stórfyrirtækjunum að ráða því að hér skuli aðeins reist 250 þús. tonna álver.