132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:16]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Ólaf Örn Ólafsson, bæjarstjóra í Grindavík, og Sigurð Líndal. Þá bárust nefndinni umsagnir frá ríkisskattstjóra, Hafrannsóknastofnuninni, Grindavíkurkaupstað, Fiskistofu, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Alþýðusambandi Íslands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Byggðastofnun, Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi smábátaeigenda.

Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að 6. gr. laganna falli brott en hún lýtur að dagakerfi fyrir krókabáta sem fellur niður í lok þessa fiskveiðiárs. Í öðru lagi er lagt til að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Í þriðja lagi er lagt til að unnt verði að flytja aflamark milli fiskiskipa með einfaldari hætti en nú tíðkast. Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði tvær tímabundnar lagabreytingar vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í veiðum og vinnslu á úthafsrækju.

Fram komu athugasemdir um að prósentuhlutföllin í 2. gr. frumvarpsins væru of há. Aflaheimildir smábátaflotans ættu sér sterkar sögulegar rætur í einstaklingsútgerð og mikilvægt væri að veiðiheimildir smábátanna söfnuðust ekki á örfáa báta. Meiri hluti sjávarútvegsnefndar getur tekið undir það og leggur til að prósentuhlutföll verði lækkuð þannig að hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild verði 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í. Hér er komið að hluta til móts við umsögn stjórnar Landssambands smábátaeigenda. Þá leggur meiri hlutinn til að þeir aðilar sem hugsanlega eru komnir upp yfir fyrrnefnd viðmiðunarmörk fái aðlögunartíma til 1. september 2009 til að flytja af skipum sínum krókaaflahlutdeildir í þeim tegundum sem þarf til þess að rúmast innan ramma ákvæðisins.

Til stendur að endurútgefa lögin um stjórn fiskveiða. Af því tilefni leggur meiri hlutinn til að gerðar verði nokkrar lagatæknilegar breytingar auk þess sem lagt er til að eitt atriði verði áréttað, sbr. eftirfarandi skýringar við 2. lið í breytingartillögum:

a. Málsliðurinn, sem lagt er til að bætist við, er nú í ákvæði XXIII til bráðabirgða en ákvæðið mun að öðru leyti falla niður við fyrirhugaða endurútgáfu. Nauðsynlegt er að hafa áfram heimild til sérveiða, svo sem ígulkera-, sæbjúgna- og hrognkelsaveiða fyrir krókaaflamarksbátana.

b. Um er að ræða tvenns konar lagfæringar vegna endurútgáfunnar: Annars vegar er lagt til að núverandi lokamálsliður 6. mgr. 11. gr. falli brott þar sem þau tímamörk sem þar eru tilgreind eru liðin en samkvæmt þessum málslið var óheimilt í fimm ár frá gildistöku laganna að flytja aflahlutdeild, sem rekja mátti til uppbótar, frá skipi. Hins vegar þykir rétt að flytja ákvæði V til bráðabirgða inn í megintexta laganna þar sem ákvæðið er ótímabundið og er lagt til að bæta því við 6. mgr. 11. gr. Samkvæmt því þarf samþykki þeirra aðila sem samningsveð eiga í skipinu 1. janúar 1991 til flutnings aflaheimildar af því.

c. Rétt þykir að skylda skipstjórnarmanna til að taka eftirlitsmenn um borð verði áréttuð.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Jóhann Ársælsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.“

Virðulegi forseti. Ég kynni hér breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar:

„1. Eftirfarandi breytingar verði á 2. gr.:

a. Í stað hlutfallstalnanna „6%“ og „9%“ í a-lið komi: 4%; 5%.

b. Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í b-lið komi: 5%.

2. Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Jafnframt verða eftirfarandi breytingar á lögunum:

a. Við 6. gr. b bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er ráðherra heimilt að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.

b. Lokamálsliður 6. mgr. 11. gr. orðast svo: Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu 1. janúar 1991.

c. Við 1. málsl. 3. mgr. 17. gr. bætist: og er skipstjórum skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79 26. maí 1997.

3. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Sé krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila við gildistöku laga þessara yfir þeim mörkum sem sett eru í 1. eða 2. mgr. 11. gr. a skal viðkomandi aðili þegar í stað senda Fiskistofu tilkynningu í samræmi við 1. mgr. 11. gr. b og gilda þá ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar. Aðili skal þó hafa frest til 1. september 2009 til að ráðstafa krókaaflahlutdeildinni þannig að hún rúmist innan settra marka. Að öðru leyti gildir 2. mgr. 11. gr. b um hámark krókaaflahlutdeildar.“

Virðulegi forseti. Ég ætla í stuttu máli að gera frekari grein fyrir breytingartillögu meiri hluta sjávarútvegsnefndar um það frumvarp sem við ræðum hér.

Varðandi 2. gr., um það að 6 og 9% breytist í 4 og 5% og hlutfallstalan 6% í 5% er ljóst að við erum að ræða um töluverðar breytingar í krókaaflamarkskerfinu, það sé verið að ræða um hámarkshlutdeild. Allir smábátar í þessu kerfi tilheyra Landssambandi smábátaeigenda.

Í umsögn landssambandsins stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn LS telur að þau hámörk sem sett eru í framkomnu frumvarpi séu allt of há og beinir þeirri eindregnu áskorun til hæstv. sjávarútvegsráðherra og sjávarútvegsnefndar Alþingis að lækka þau í 3%.

Jafnframt lýsir stjórn LS því yfir að hún telur eðlilegt að sett séu ákvæði til bráðabirgða gagnvart þeim aðilum sem nú þegar kunna að vera komnir yfir 3% hámörk, þar sem núverandi stöðu þeirra væri ekki raskað. Slíkt ákvæði kæmi til endurskoðunar að 10 árum liðnum.

Stjórn LS minnir á að aflaheimildir smábátaflotans eiga sér sterkar sögulegar rætur í einstaklingsútgerð og dreifðri eignaraðild. Barátta félagsins hefur frá upphafi byggst á þeim grunni og enginn vafi leikur á að hið sama gildir um hinn mikla stuðning stjórnvalda og almennings við smábátaútgerðina.

Með framangreindum tillögum telur stjórn LS að hún mæti tvenns konar sjónarmiðum, annars vegar því að veiðiheimildir smábátanna safnist ekki á örfáa báta og hins vegar að raska ekki stöðu þeirra sem mestar veiðiheimildir hafa í krókaaflamarkinu nú um stundir.“

Það er eðlilegt að ræða prósentubreytingar og aðlögunartíma saman en hvað varðar frestun eða aðlögun bætist ákvæði til bráðabirgða við, sem er svohljóðandi:

„Sé krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í eigu tengdra aðila við gildistöku laga þessara yfir þeim mörkum sem sett eru í 1. eða 2. mgr. 11. gr. a skal viðkomandi aðili þegar í stað senda Fiskistofu tilkynningu í samræmi við 1. mgr. 11. gr. b og gilda þá ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar. Aðili skal þó hafa frest til 1. september 2009 til að ráðstafa krókaaflahlutdeildinni þannig að hún rúmist innan settra marka. Að öðru leyti gildir 2. mgr. 11. gr. b um hámark krókaaflahlutdeildar.“

Hér er verið að gefa eftir aðlögun í þrjú og hálft ár. Það er eitt fyrirtæki sem þarf að selja aflaheimildir miðað við þau hámörk sem koma fram í breytingartillögum meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Fyrirtækið sem hér um ræðir er Stakkavík og er með mikla og öfluga starfsemi í Grindavík. Það hefur keypt mikið af aflaheimildum og þarf því að bregðast við. Ég hef rætt nokkuð oft við þessa aðila og gert þeim grein fyrir þróun þessa máls. Það er ljóst að mikil sameining hefur orðið í krókaaflamarkskerfinu og m.a. þess vegna er verið að setja á takmarkanir, svo að tryggt verði að dreifing verði á fleiri fyrirtæki svo og sjávarbyggðir.

Eins og áður hefur komið fram er meiri hluti sjávarútvegsnefndar að fara milliveg annars vegar við upphaflegt frumvarp þar sem prósentan í þorski var 6% og prósentan í ýsu 9% og heildarprósenta 6% og hins vegar, ef við hefðum farið eftir tillögum LS, þ.e. 3% á línuna, hefðu fjórir til fimm aðilar lent í að selja hluta af heimildum sínum. Það er ekkert óeðlilegt að það sé ágreiningur þegar það þarf að taka ákvörðun um hvað þetta hámark eigi að vera en við sem erum pólitískt kjörin þurfum að axla þá ábyrgð sem því fylgir að gera þessar breytingar. Ég er þess fullviss að bæði Stakkavíkurmenn og fulltrúar LS eru óánægðir með tillögu meiri hluta sjávarútvegsnefndar en við teljum okkur vera að fara meðalveg í þessu máli.

Bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, mætti einnig á fundinn og gerði okkur grein fyrir starfsemi Stakkavíkur og þeim áhrifum sem það gæti haft á samfélagið ef Stakkavíkurmenn þyrftu að selja aflaheimildir frá sér miðað við breytingartillögu meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Ég skil vel áhyggjur þeirra Grindvíkinga út af þessu máli.

Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi.“

Hér erum við að fara að gefa út eða endurskrifa lög um stjórn fiskveiða. Það var tími til kominn að gera þau enn skýrari en það eru 35 bráðabirgðaákvæði inni sem ekki hafa gildi og detta því sjálfkrafa út með þessari breytingu. Ég tel að fleiri nefndir ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar og henda út ákvæðum sem ekki eiga rétt á sér í dag og gera lög almennt læsilegri og skiljanlegri en þau eru.

Í 2. breytingatillögu eru þrjár breytingar á lögunum og hljóðar a-liður svo:

„Við 6. gr. b bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er ráðherra heimilt að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.“

Það er meginregla í lögum um stjórn fiskveiða að krókaaflamarksbátar mega aðeins stunda veiðar með línu og handfærum. Í ákvæði XXIII til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða er sú undanþága frá þessari reglu að heimilt er að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar með gildrum og plógum á botndýrum og til hrognkelsaveiða í net. Veiðar með gildrum og plógum eru á þessum bátum stundaðar á beitukóngi, ígulkerjum og sæbjúgum. Þar sem ákvæði XXIII fellur niður við endurútgáfu laganna er nauðsynlegt að flytja hana inn í megintexta laganna enda á hún betur heima þar þar sem heimildin er varanleg.

Breytingin í b-lið hljóðar svo:

„b. Lokamálsliður 6. mgr. 11. gr. orðast svo: Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu 1. janúar 1991.“

Hér er í fyrsta lagi lagt að fellt sé úr gildi ákvæði sem verið hefur í lögum um stjórn fiskveiða frá upphafi. Samkvæmt ákvæði þessu var ekki heimilt í fimm ár frá gildistöku laganna að flytja af skipi aflahlutdeild sem rekja má til sérstakra uppbóta sem úthlutað var þegar lögin tóku gildi í ársbyrjun 1991. Ákvæði þetta hefur ekki gildi og hefur nú fallið niður og því þarf að fella það úr lagatextanum.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði V til bráðabirgða við lögin sem verið hefur í lögunum frá gildistöku þeirra 1991 verði flutt inn í megintexta þar sem ákvæðið er ótímabundið og er lagt til að bæta því við 6. mgr. 11. gr. Samkvæmt þessu ákvæði þarf samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipi við gildistöku laganna 1. janúar 1991 til þess að flytja af því aflahlutdeild.“

Breytingin í c-lið hljóðar svo:

„c. Við 1. málsl. 3. mgr. 17. gr. bætist: og er skipstjórum skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79 26. maí 1997.“

Samkvæmt lögum annast Fiskistofa eftirlit með því að lögum um stjórn fiskveiða sé framfylgt. Heimild til þess að setja eftirlitsmenn um borð í veiðiskip er í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þykir eðlilegt í lögum um stjórn fiskveiða að vísa til þessarar heimildar í lögum nr. 79/1997 til að styrkja heimildir Fiskistofu til eftirlits með lögum um stjórn fiskveiða.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er ekki verið að læða hér neinu inn í þetta frumvarp. Þessar viðbætur í breytingartillögunum voru kynntar tímanlega fyrir sjávarútvegsnefndarmönnum og það var lag til að taka þær inn í þessar breytingartillögur. Ég ætla ekki að fara í nánari útfærslu á breytingartillögunum en geri mér grein fyrir því að hér eiga eftir verða miklar umræður um þetta mál.

Virðulegi forseti. Við erum að taka til 2. umr. frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Við erum í fyrsta lagi að fella niður 6. gr., sem byggist á því að dagakerfi sóknardagabáta verður lagt niður. Aðeins tveir bátar eru enn starfandi í því kerfi en munu færast yfir í krókaaflamarkskerfi í lok þessa fiskveiðiárs en þá lýkur aðlögunartíma. Það var mikilvæg og skynsamleg ákvörðun að leggja af sóknardagakerfið og færa það yfir í krókaaflamark. þ.e. smábátar fengu úthlutað kvóta. Það var gert í sátt við þorra þeirra aðila er starfa í greininni. Það var tekist á um þetta mál hér á Alþingi en þegar kom að afgreiðslu greiddu ekki nema fjórir þingmenn atkvæði á móti þessum breytingum.

Virðulegi forseti. Í 1. umr. var töluvert rætt um hverjir hefðu samþykkt þessar breytingar og hverjir ekki og það var eiginlega borið á mig sem formann sjávarútvegsnefndar að hafa sjálfur staðið fyrir skoðanakönnun um þetta mál en ég ætla nú að vísa því frá mér. Ég ákvað bara að fletta upp í gögnum hjá mér og fór að leita að niðurstöðu kannana sem smábátasjómenn gerðu. Það voru 227 af 292 sem svöruðu þessari skoðanakönnun, sem er mjög jákvæð og sýnir jákvæð viðhorf þeirra aðila sem starfa í þessari grein gagnvart þessum breytingum. Það voru 183 sem sögðu já, 80,6%, en nei sögðu 19,38%. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða og ég hugsa að ef menn hafa áhuga á því geti ég útvegað lista yfir þá aðila sem eru þar. Þar eru menn nefndir á nafn, bæði þeir sem eiga þessa báta og þeir sem (Gripið fram í.) gerðu þessa könnun. Mér finnst alveg, miðað við 1. umr., ömurlegt að þeir aðilar sem hafa staðið í þessu og þau nöfn sem eru nefnd — þetta eru allt gögn sem við fengum að sjá — skuli sitja undir því að vera að falsa skoðanakönnun. Því var haldið fram hér við 1. umr.

Það er jafnframt verið að bæta við 1. mgr. 11. gr. laganna þar sem samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í leigu tengdra aðila er takmörkuð. Hlutfallið í frumvarpinu er að krókaaflahlutdeild verði ekki hærri en 6% af þorski og 9% af ýsu miðað við krókaaflahlutdeild í hvorri tegund. Jafnframt bætist við 2. mgr. 11. gr. um heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.

Breytingartillögur, sem hér eru til umræðu, miðast við 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% af heildarverðmæti. Það er og það verður alltaf ágreiningur um þessar prósentur. Sumir vilja hafa þær lægri en aðrir hærri til samræmis við þær prósentur sem eru til staðar í dag. Við erum samt sem áður að skerpa á því að við ætlum að skilja enn betur á milli stóra kerfisins og krókaaflamarkskerfisins. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld skilgreini það enn frekar og það er hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera með þessu frumvarpi.

Ég fagna því sérstaklega að heimilt verði að tilkynna um flutning aflamarks milli fiskiskipa í rafrænu formi. Gerður verður þjónustusamningur við Fiskistofu og árgjald fyrir slíka samninga verði 12 þús. kr. fyrir hvert fiskveiðiár. Í fyrstu er gert ráð fyrir að aðgangur veiti útgerðarmönnum aðeins heimild til þess að flytja aflamark á milli eigin báta en þegar kerfið hefur þróast geti heimildir til flutnings náð til allra sem eru með þjónustusamning. Þetta er eðlilegt meðan þessi mál eru að þróast því gæta þarf öryggis við svo veigamiklar breytingar.

Einnig er ákvæði til bráðabirgða þar sem tekið er á því að úthluta aflamarki í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008, að það leiði ekki til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum. Við höfum rætt um vanda rækjuiðnaðarins hér á Alþingi og er þessi breyting eðlileg í framhaldi af því. Að undanförnu hafa veiðar og vinnsla á úthafsrækju gengið illa. Ástand úthafsrækjustofnsins hefur verið lélegt og aðeins heimilt samkvæmt tillögum Hafró að veiða 10 þús. lestir af úthafsrækju á yfirstandandi fiskveiðiári. Það hefur ekki tekist að veiða leyfilegan úthafsrækjuafla síðastliðin ár, bæði hefur veiðin ekki verið sem skyldi og markaðsaðstæður ekki nógu góðar.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður að þrátt fyrir lög um stjórn fiskveiða er ekkert það heilagt í þeim að ekki megi breyta eða taka tillit til aðstæðna hverju sinni og það er verið að gera hér varðandi rækjuveiðarnar. Við munum á morgun, á milli 2. og 3. umr., leggja fram smábreytingartillögu varðandi rækju á Flæmingjagrunni í sjávarútvegsnefnd, á fundi sem stefnt er að því að halda í hádegishléi. Jafnframt er verið að endurgreiða útgerðargjald vegna úthlutaðs aflamarks í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006.

Veiðigjald samkvæmt V. kafla laganna vegna úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 skal innt í lok hvers fiskveiðiárs miðað við landaðan úthafsrækjuafla fiskiskipa á því fiskveiðiári. Hér er um tímabundnar lagabreytingar að ræða vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í veiðum og vinnslu á úthafsrækju og ber að fagna því. Vonandi næst að rétta úr kútnum í veiðum og vinnslu á úthafsrækju en það er mjög mikilvægt fyrir sjávarbyggðir hér á landi þar sem rækjuveiðar og vinnsla hefur verið nokkuð stór þáttur í atvinnulífinu.

Virðulegi forseti. Við í sjávarútvegsnefndinni fengum á fund okkar Sigurð Líndal þar sem beiðni kom frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem spurði hvort þetta bráðabirgðaákvæði, ef að lögum verður, varðaði 75. gr. stjórnarskrárinnar — það var eðlilegt að fá hann á fund þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því þannig til að þetta hefði ekki verið kannað við 1. umr. Ég hef látið taka nokkra punkta saman sem Sigurður sagði um þetta mál, gott að það komi fram hér í umræðunni. Hann telur að þetta sleppi, þ.e. að ekki sé um brot á stjórnarskrá að ræða. Sýnist að frambærilegar ástæður séu fyrir setningu bráðabirgðaákvæðisins. Ákvæðið takmarkast við þá sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum. Ósanngjarnt sé ef þeir missa veiðiheimildir sínar við þær aðstæður sem nú eru uppi í rækjunni. Ákvæðið er tímabundið og gildir aðeins í þrjú ár. Vísað til væntingarréttar sem oft er vitnað í, t.d. hjá Mannréttindadómstólnum og Evrópudómstólnum. Hann telur að væntingarréttur þeirra sem byggja vonir sínar á að þeir geti nýtt sér þetta sé ekki sterkur. Með vísan til 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða hefur hann þó þá leiðbeiningu um túlkun að löggjafinn hefur víðtækari rétt til að takmarka eignarréttindi og atvinnufrelsi. Það leiðir af eðli málsins þótt hann telji að umrædd 1. gr. sé merkingarlaus að öðru leyti. Hér er ekki síður verið að vernda atvinnuréttindi þeirra sem veiða úthafsrækju. Þeir hafa fjárfest í atvinnutækjum og þjálfað mannskap. Atvinnufrelsið takmarkast af því.

Jón Gunnarsson spurði hvort ekki væri rétt að setja almennar reglur þegar efnisleg rök búa að baki slíkum aðgerðum. Sigurður taldi viss verndarrök felast í greinargerðinni, þ.e. að hér væri ekki eingöngu um að ræða efnahagsleg rök.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra á hrós skilið fyrir þessar breytingar, niðurfellingu 6. gr., þar sem dagakerfið er lagt af, verið að styrkja og skerpa milli stóra og litla kerfisins, verið að einfalda flutning á aflamarki fiskiskipa með rafrænni skráningu svo og að bregðast tímabundið við erfiðleikum sem verið hafa í rækjuveiðum og -vinnslu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að renna hér yfir umsagnir um þetta mál og taka bara stutt úr hverri umsögn.

Akraneskaupstaður gerir ekki athugasemdir við þetta.

Alþýðusamband Íslands styður þessar breytingartillögur en bendir jafnframt á að við ákvörðun á hámarkskrókaaflahlutdeild þurfi að gæta þess að þeir sem starfandi eru í krókaaflamarkskerfinu verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess að þeir hafi áður en frumvarpið kom fram fjárfest í krókaaflahlutdeild sem leiðir til þess að þeir fara yfir hámarkið.

Byggðastofnun segir:

„Í öðru lagi er verið að setja reglur um hámark krókaaflahlutdeilda í þorski og ýsu, sem heimilt er að séu í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Byggðastofnun telur nauðsynlegt að setja slíkar reglur til að tryggja að aflahlutdeild dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með líklega fleiri byggðarlög og hafi þannig áhrif víðs vegar um land.“

Frá Dalvík er þetta lagt fram, í Eyþingi er ekki tekin afstaða.

Farmanna- og fiskimannasambandið telur aflahlutdeild smábáta á kostnað annarra fiskiskipa komna langt umfram það sem eðlilegt er að sanngjarnt geti talist. Miðað við þann veruleika sem búið er við um þessar mundir er Farmanna- og fiskimannasambandið sammála því að hámarka skuli hlutdeild einstakra aðila í þessum útgerðarflokki rétt eins og er í öðrum.

Fiskistofa gerði ekki athugasemd við frumvarpið.

Fjórðungssamband Vestfirðinga segir:

„Miðað við núverandi fiskveiðistjórnun er byggðakvótinn einn af þeim fáu möguleikum sem stjórnvöld í landinu hafa til að bregðast við þeirri röskun sem minnkandi veiðiheimildir hafa á einstökum svæðum.“

Bæjarstjórn Grindavíkur leggur til að 2. gr. frumvarpsins verði felld niður.

Hafró gerir ekki athugasemdir.

Bæjarráð Húsavíkurbæjar gerir ekki athugasemdir.

LÍÚ gerir ekki athugasemdir, ræðir aðeins um veiðigjaldið.

Við höfum þegar kynnt umsögn Landssambands smábátaeigenda.

Borgarráð vísaði þessu í stjórnsýslu- og starfsmannasvið, það hefur ekkert komið frá þeim.

Ríkisskattstjóri segir:

„Ekki er tilefni af hálfu embættisins til að gera athugasemdir við frumvarp þetta.“

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum:

„Frumvarpið er til umsagnar í sveitarfélögum á Suðurnesjum. Stjórnin vísar til umsagna þeirra.“

Sjómannasamband Íslands styður meginatriði frumvarpsins sem hér er fjallað um nánar um hverja grein frumvarpsins.

Sveitarstjórn Súðavíkur gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

Verðlagsstofa telur sér ekki fært að veita umsögn.

Vélstjórafélagið hefur ekki athugasemd við frumvarpið.

Þetta er mjög athyglisvert hvað margir eru hlynntir þessu frumvarpi og hafa gefið jákvæðar umsagnir.

Virðulegi forseti. Ég legg síðan til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.