132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:49]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður sjávarútvegsnefndar Guðjón Hjörleifsson svaraði ekki spurningu minni, af hverju réttur fyrirtækis í Grindavík varðandi þá lagasetningu sem hér er verið að leggja fram sé eitthvað minni en réttur þeirra sem eru umrædd í þeirri lagasetningu sem við ræddum í málinu á undan. Ég sé engan mun á þessu og þau rök sem hv. formaður færði í 1. umr. fyrir því að menn yrðu að halda rétti sínum hljóta að eiga alveg eins við í þessari umræðu.

Það er annað sem vekur athygli mína. Það er að í breytingartillögu meiri hluta sjávarútvegsnefndar er komið inn með fullt af atriðum sem ekki voru í frumvarpi ráðherrans. Það er verið að koma með þrjár eða fjórar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem ekki voru inni í frumvarpi ráðherrans og aldrei hafa verið ræddar hér í 1. umr. Svo var hv. formaður sjávarútvegsnefndar að boða hér breytingartillögu milli 2. og 3. umr. þannig að við komum til með að hafa hér frumvarp, fullt af atriðum sem aldrei hafa verið rædd og svo til viðbótar á að koma með eitthvað nýtt milli 2. og 3. umr.

Finnst hv. formanninum þetta boðleg vinnubrögð?