132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hér hafa hv. þingmenn verið að ræða þetta frumvarp í samhengi við hagsmuni jafnvel eins fyrirtækis. En ég vil líta á þetta frumvarp í víðara samhengi. Ég vil líta á þjóðarhagsmuni. Ég er viss um að með þessu frumvarpi er verið að festa í sessi kerfi sem hefur engu skilað. Upprunalegt markmið fiskveiðistjórnarkerfisins var að stækka fiskstofnana svo þeir skiluðu meiru í þjóðarbúið. En niðurstaðan, eftir að þetta kerfi hefur verið við lýði í áratugi er að það er mínus árangur. Það er mjög átakanlegt að verða vitni að því að formaður sjávarútvegsnefndar, kemur úr sjávarplássi sem hefur farið mjög illa út úr þessu kerfi, sem er verið að festa hér í sessi. Sá sem flutti þetta frumvarp, hæstv. sjávarútvegsráðherra, kemur einnig úr sjávarplássi sem hefur farið illa út úr þessu kerfi. Menn koma hér og flytja þetta og eru síðan að festa þetta í sessi.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er hér að flytja þetta mál nú, hvort honum hafi aldrei dottið í hug að skoða þessa hluti upp á nýtt í staðinn fyrir að vera að festa í sessi ónýtt kerfi sem hefur komið heimabæ hans mjög illa. Mér finnst það vera með ólíkindum að menn sjái ekkert annað en þessa vitleysu.

En árangursleysið er algert. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann í einlægni hvort honum hafi ekki komið til hugar að það væri kannski kominn tími til að snúa við blaðinu.