132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson erum ekkert sammála um hvort þetta sé gott eða slæmt kerfi. Ég tel þetta vera gott kerfi. Hann talaði um að ég kæmi úr sjávarplássi. Ég kem úr Vestmannaeyjum og ég held að það sé almenn sátt með þetta kerfi þar. Eyjamenn hafa staðið sig vel við að vinna í þessu kerfi og hafa ekki verið að missa aflaheimildir. Það er mikilvægt að menn sem hafa svona ábyrgð heima fyrir reyni að tryggja aflaheimildir áfram.

Ég er þingmaður úr Suðurkjördæmi og þar er Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn sem eru ágætar sjávarbyggðir, og ég held að almennt sé ánægja með þetta kerfi af því menn eru tilbúnir að starfa í því og starfa eftir þeim leikreglum sem eru í gildi.