132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að átta mig betur á því sjónarmiði sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem mér skildist að væri eitthvað á þá lund að lögum um stjórn fiskveiða mætti ekki breyta þannig að það breytti stöðu þeirra sem störfuðu miðað við gildandi lög. Sem dæmi nefndi hann þetta frumvarp sem hér er og þeir sem hefðu verið að vinna innan kerfis smábátanna samkvæmt lögunum sem eru í gildi í dag, að ekki mætti til framtíðar litið gera neinar breytingar á þessum lögum sem breytti aðstæðum þeirra.

Ég spyr hvað þetta þýði, virðulegi forseti. Þýðir þetta að hv. þingmaður er að boða að aldrei megi gera neinar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða? Þýðir þetta t.d. að fyrningarleiðin er alveg úti af borðinu? Það þætti mér nú skaði því að ég var dálítið veikur fyrir þeirri leið. Ég er reyndar á þeirri skoðun að gera þurfi verulegar breytingar á þessu kerfi og það verði ekki gert öðruvísi en að nýtt kerfi verði verulega frábrugðið því gamla og þá þurfi menn einhverja aðlögun úr núverandi kerfi í nýtt kerfi og menn geta kallað það fyrningarleið eða einhverja aðra leið til að komast frá ranglæti til réttlætis, eigum við ekki að segja það, virðulegur forseti?

Ég spyr því hv. þm. Jón Gunnarsson hvort hann sé í rauninni búinn að festa sig í þeim heimi sem við búum í í dag, sem er þá væntanlega besti heimur allra heima sem aldrei megi breyta til framtíðar litið.