132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerir sér upp skilningsleysi og lætur eins og hann skilji ekki það mál sem hér var til umræðu. Ég ætlaði nú hv. þingmann skarpari en svo að hann skildi þetta ekki.

Það sem kom fram máli mínu var ósköp einfalt. Að sjálfsögðu má breyta lögum um stjórn fiskveiða og það gerir Alþingi. En við þær breytingar hlýtur Alþingi að þurfa að halda sig við almennar breytingar, ekki einstakar breytingar sem snerta tiltölulega mjög fáa af þeim sem starfa í greininni en aðrir sem starfa innan sama kerfis eftir sömu lögum verða ekki fyrir neinum breytingum. Afturvirk lagasetning sem heftir með almennum hætti athafnafrelsi manna þannig að enginn sé tekinn út úr heldur gildi þetta jafnt um alla er að mörgu leyti þolanlegri en afturvirk lagasetning sem beinist gegn einum aðila eða tveimur, skiptir ekki öllu máli hvað þeir eru margir, þ.e. ef þeir eru mjög fáir, það er annað mál en þegar verið er með almennum hætti að breyta lögum eða lagabálkum eins og lögum um stjórn fiskveiða. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á niðurlag nefndarálits minni hlutans hefði hann heyrt það sem þar koma fram að minni hlutinn nefndi í nefndarálitinu að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða væru tíðar og sífellt verið að breyta einstökum atriðum laganna og það væri álit minni hlutans að nauðsynlegt væri að taka til endurskoðunar lögin í heild sinni í stað þess að sífellt séu gerðar tilraunir til að bæta úr ágöllum sem á lögunum eru. Við höfum lýst þeirri skoðun okkar að við teljum fulla nauðsyn á að taka lögin um stjórn fiskveiða algjörlega til endurskoðunar og oft og tíðum leyfi ég mér að segja, herra forseti, a.m.k. stundum, hefur mér heyrst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vera á sömu skoðun.