132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við erum á sömu skoðun í því að taka þarf þetta kerfi allt upp í heildarendurskoðun, en ég ætla ekki að fjalla um það núna heldur reyna að átta mig á málflutningi hv. þingmanns. Hann segir að það verði að vera almennar breytingar. Ég vil halda því fram, virðulegi forseti, að frumvarpið og breytingartillögurnar falli einmitt undir þetta, þær boða almennar breytingar. Verið er að setja almennar leikreglur inn í smábátakerfið sem þeir sem þar kjósa að starfa í framtíðinni verða að beygja sig undir. Ég held að ekki sé hægt með neinum rökum að neita því að þetta eru reglur sem verið er að setja, almennar leikreglur í kerfinu, og hafa skýran tilgang sem ég heyri ekki annað en að hv. þingmenn séu í grundvallaratriðum sammála um.

Ég spyr: Er þá hv. þingmaður að segja að þær almennu leikreglur sem menn ætla sér að setja verði að vera þannig að þær snerti engan sem í dag er í kerfinu? Það er það sem mér skildist á hv. þingmanni, að athugasemdir hans við tillögur meiri hlutans væru þær að þessar almennu leikreglur sem meiri hlutinn leggur til að verði settar komi við einhverja sem eru í kerfinu í dag og þeir verði að laga sig að þeim reglum.

Þá spyr ég: Telur hv. þingmaður að það séu almennar leikreglur ef sumir verða að fara eftir þeim og aðrir eru undanþegnir þeim? Það er það sem mér heyrist að hv. þingmaður sé að tala fyrir, að einhverjir séu undanþegnir almennu leikreglunum. Það er það sem mér finnst einkennilegt að heyra, virðulegur forseti, vegna þess að við erum ekki með afturvirkar breytingar heldur framvirkar breytingar sem er algjörlega hið andstæða við það sem hv. þingmaður hélt fram.