132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:02]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér sjávarútvegsmál í 2. umr. Ég ætla ekki að fara yfir þau tæknilegu atriði sem hafa verið til umræðu, það hefur verið farið rækilega í gegnum það, en það sem ég ætlaði að vekja athygli á er hversu umræðan um fiskveiðistjórn er orðin óskiljanleg og komin langt frá upprunalegu markmiði. Upprunalegt markmið með stjórn fiskveiða var að stýra veiðum þannig að ekki yrði gengið á stofna. Nú virðist annað vera upp á teningnum og umræðan er orðin óskiljanleg og er rekin að einhverju leyti áfram á einhverri hugmyndafræðilegri hagfræði þar sem hægt er að skipta upp fiskstofnum hringinn í kringum landið og deila þeim upp í einhverjar prósentur sem síðan er hægt að útdeila hingað og þangað og þess vegna geta veiðiheimildir safnast saman á einum stað. Þetta er allt hrein og klár della.

Ég furða mig á því hvernig í rauninni er komið fyrir þjóðinni. Ef maður les í gegnum þetta litla frumvarp, sem er ekki nema fjórar greinar og svo eitt ákvæði til bráðabirgða, þá eru þar nokkur orð sem eru mjög illskiljanleg fyrir venjulegt fólk í samfélaginu. Það er krókaaflahlutdeild, heildarkrókaaflahlutdeild og aflamark. Síðan má kannski vekja máls á því að ef fólk ætlar að átta sig á sjávarútvegsumræðunni getur það verið flókið vegna þess að þar er árið nú ekki almanaksárið heldur fiskveiðiár. Allt verður þetta til þess að umræðan verður þokukennd og ég er á því að sumir, og þar vil ég nefna hæstv. sjávarútvegsráðherra, séu reyndar löngu búnir að týna sér í þessari umræðu. Ég hef verið að velta því fyrir mér, af því nú tók hann við þessu embætti fyrir ekki svo mörgum mánuðum, hvort maðurinn hafi enga framtíðarsýn eða birtist hún í þessum frumvörpum hér, frú forseti, þar sem eiga að verða einhver prósentuskipti? Síðan er verið að útdeila einhverjum byggðakvótum hingað og þangað. Er það framtíðarsýn Vestfirðingsins fyrir vestfirskar byggðir, þ.e. byggðakvóti sem síðan, eins og komið hefur fram, er jafnvel leigður út eitthvert annað? Allir eru í rauninni hættir að skilja upprunalegt markmið og hvað menn í rauninni eru að fara með þessari stýringu.

Áður en lengra er haldið er vert að minnast á það að umræddur hæstv. ráðherra hafði einhvern tíma framtíðarsýn og lofaði fólki, áður en hann var kosinn á þing, að hann mundi aldrei styðja þetta kerfi. Síðan lofaði hann því líka að hann mundi aldrei falla frá því að smábátar hefðu ákveðið frelsi til að sækja í aukategundir. Þetta hefur hann svikið. Hann hefur líka svikið það, frú forseti, að setja sóknardagabáta í kvóta. Þetta eru hrein og klár svik en það sem er kannski verra er að fyrir síðustu kosningar gaf hann til kynna að annar stjórnmálaflokkur ætlaði að svíkja og fordæmdi hann á heimasíðu sinni. Síðan varð það hans fyrsta verk þegar hann settist á þing, kosinn sem þingmaður á þessum forsendum, að ganga á bak orða sinna og ekki í fyrsta sinn.

Ég lýsi eftir framtíðarsýn hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég upplifi þessa þingmenn og Sjálfstæðisflokkinn, sem einhvern tíma var flokkur einkaframtaksins, sem hálfgerðan kontóristaflokk og það lýsir sér í þessu frumvarpi. Það er framtíðarsýnin að vera fastur í einhverju kerfi sem skilar ekki nokkrum einasta árangri, a.m.k. ekki þeim árangri að byggja upp fiskstofnana, ekki þeim árangri að viðhalda byggð í landinu, það getur hver maður séð. Ef farið er yfir fleiri þætti og hverju þetta kerfi skilar þá er alltaf talað um einhverja hagkvæmni.

Ég spurði hv. formann sjávarútvegsnefndar í umræðunni fyrr í dag í hverju þessi hagkvæmni væri fólgin. Það kom ekkert fram, ekkert skýrt. Þegar hann talaði síðan fyrir ágæti þessa frumvarps vitnaði hann m.a. í orð sjálfs sín um að nýliðun væri betur borgið með þessu frumvarpi en ef ekki hefði verið farið af stað með það. Ég tel að þessir menn og Sjálfstæðisflokkurinn, ég tala nú ekki um Framsóknarflokkinn, þurfi að líta í eigin barm. Er það þetta sem við viljum fyrir Ísland framtíðarinnar? Er það þetta sem við viljum fyrir sjávarbyggðir landsins, að þær séu fastar í einhverju kvótakerfi sem skilar engu nema byggðaröskun og hagkvæmni sem sést ekki, a.m.k. ekki hvað varðar fiskiskipaflotann?

Ef farið er yfir hann, og ég hvet þá sem vilja skoða þetta með gagnrýnum og upplýstum hætti að fara yfir skipaskrá landsmanna, þá eru einu nýju skipin hafnsögubátar og olíuskip. Ég fór fyrir þetta fyrr í dag í tölvunni, það er mjög handhægt að sjá það á skip.is að einu skipin sem eru ný í flota Íslendinga eru hafnsögubátar og olíuskip og jú, það eru nokkur ný uppsjávarskip í flotanum. Annars er algjör stöðnun í þessari atvinnugrein. Það lýsir mikilli firringu í Sjálfstæðisflokknum hvernig ástandið er í þessu.

Við getum t.d. tekið menntun í þessari grein. Það er alveg lýsandi dæmi að búið er að leggja niður fiskvinnsluskólana og þegar minnst er á þá hér liggur við að hæstv. menntamálaráðherra telji það fyrir neðan virðingu sína að svara því. Ef það væri eitthvað annað, ég tala nú ekki um lögfræðideild og verið væri að stofna kannski þá fimmtu þá væri möguleiki að hún kipptist við og vildi taka mikinn þátt í umræðunni, en þegar um er að ræða menntun í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar mætir Sjálfstæðisflokkurinn ekki til leiks.

Það eru fleiri sem mæta ekki til leiks og ég sakna hæstv. forsætisráðherra. Ég veit ekki í hvaða verkum hann er þessa stundina en hann er guðfaðir þessa kerfis og hefði kannski átt að sjá sóma sinn í því að tala að einhverju leyti um framtíðarsýn í þessari atvinnugrein. (Gripið fram í.) Ef til vill er hann þar í ýmsum verkum, hver veit? En það er aldrei að vita nema hann heyri þessi orð og mæti hér og ræði um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Ég tel að honum væri nær að gera það en margt annað, svo sem eins og að tilkynna hvað hæsta fjall landsins er hátt, eins og hann varði miklum tíma í, en þegar kemur að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar þá er hann ekki í salnum. Þannig er það.

Sjálfstæðismenn koma hér stundum eins og í umræðunni fyrr í dag þegar þeir bjuggu til lítinn leikþátt um hvalveiðar þar sem þeir komust að því að hvalurinn æti eitthvað eilítið meira en áætlað hefði verið áður og þess vegna ætti að rannsaka meira og láta fara fram vísindaveiðar a.m.k. í tvö ár enn. En að taka einhverjar ákvarðanir um að hefja alvöruveiðar, nei, um það fást engin svör hjá hv. þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þegar þau mál eru uppi, alls ekki.

Það eru fleiri sem ég sakna hér, það eru menn sem koma stundum fram í fjölmiðlum og lýsa yfir miklum áhyggjum og efast um alla þætti fiskveiðistjórnarinnar. Hverjir ætli það séu? Það er t.d. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann efast um alla þætti. Samt mætir hann í þingsalinn og alltaf þegar greiða á heimabyggð hans, Flateyri, högg með fiskveiðistjórninni þá er hann mættur annaðhvort á já-takkann eða að hann gufar upp, hann mætir ekki, t.d. þegar verið er að ræða um sóknardagakerfið. Hann mætir hér síðan kotroskinn og vill að ég leiðrétti það, m.a. úr þessum ræðustól, að hann hafi staðið að þessari gjörð, sem hann gerði með fjarveru sinni úr þingsalnum, með því að standa ekki við þau orð sem hann gaf. Þessir menn eru komnir upp að vegg í umræðunni og sérstaklega þó hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann virðist ekki hafa nokkra framtíðarsýn, hann virðist vera eins og hver annar kontóristi, fastur í einhverju kerfi sem er þó að leggjast á heimabyggð hans og byggðir um land allt. Hver er árangurinn? Ég sé hann ekki því miður.

Það er annað sem gerist með þessu kerfi eða þessu frumvarpi að þetta eru endalok sóknardagakerfisins. Mér skildist á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra að það hefði verið til þess að greiða Frjálslynda flokknum eitthvert högg og þá sér maður náttúrlega hvað þessir ágætu landsfeður eru að hugsa um hag þjóðarinnar þegar gengið er fram með þessum hætti á veikustu byggðir landsins — hér hafa verið taldar upp byggðirnar á Vestfjörðum — í því augnamiði að ráðast á minnsta flokkinn á Alþingi. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum og það er náttúrlega stórundarlegt hugarfar sem þarna býr að baki og kom greinilega fram í þessum skrifum hæstv. dómsmálaráðherra.

Það eru fleiri þættir sem ég vil minnast á. Það er í sambandi við hagkvæmnina. Hvar er hún að skila sér? Hvar kemur hagkvæmnin fram? Hún kemur ekki fram í launaumslögum sjómanna, alls ekki. Og það er eitt sem ég furða mig á þegar ég les yfir umsagnirnar, m.a. frá ASÍ, að menn skuli ekki hafa meiri áhyggjur af þeim sem vinna í greininni en fram kemur í umsögnunum. Það er nú svo að hluti þeirra sem vinna hættulegustu störfin á hafi úti og sækja björg í þjóðarbúið eru leiguliðar sem búa við afar slæm kjör. Stór hluti af tekjum þeirra fer í það að borga einhverjum sem einhvern tíma sóttu sjóinn. Þetta eru mjög háar upphæðir í hið svokallaða stóra kerfi en það er kerfi þar sem menn nota m.a. net og geta þá mögulega sótt í stærri fisk en þeir gera á krókum, þar þurfa menn að greiða allt að 130 kr. fyrir réttinn sem rennur beint út úr útgerðinni og kemur ekki inn í launaumslög og til skipta fyrir sjómenn.

Ég hefði viljað að Alþýðusamband Íslands tæki á þessu máli. Mér finnst það alveg stórundarlegt að þeir virðast vera fastir uppi á Kárahnjúkum með áhyggjur sínar en þegar kemur að sjómönnum landsins er eins og menn séu ekki vakandi fyrir þessu. Og hvað veldur? Ég veit það ekki en e.t.v. er það einhver sofandaháttur, m.a. hjá forustumönnum sjómanna sjálfra að taka ekki á þessum þætti.

Í litla kerfinu svokallaða, þar sem veitt er á krókum, er líka hátt leiguverð. Þegar menn tala svo um það hér, eins og hv. formaður sjávarútvegsnefndar, að verið sé að tryggja þar einhverja nýliðun þá er það af og frá og algjör öfugmæli. Með þessu frumvarpi er í rauninni verið að festa þetta kerfi og það verður þessum ágætu mönnum, hæstv. sjávarútvegsráðherra og formanni sjávarútvegsnefndar, ekki til neins sóma, langt í frá. Þarna eru þeir í rauninni að lýsa því að þeir séu fastir í einhverju kerfi, ekki tilbúnir til að breyta einu né neinu þó svo að öll rök hnígi til þess ef þeir litu til þjóðarhags að þyrfti að breytast. Og það mun breytast því að þjóðin getur ekki sætt sig við þá sóun sem þetta kerfi býður upp á. Það er af og frá.

Hvernig á að breyta? Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram ýmsar tillögur hvað það varðar og þar er ein tillaga sem væri náttúrlega mjög auðveld og mundi vinda ofan af mjög miklu í þessu kerfi. En þegar þessir hv. þingmenn tala fyrir frjálshyggju þá virðist hún bara eiga heima á ákveðnum stöðum, kannski ef menn eru að ræða einhver málamyndafrumvörp, en þegar komið er að kjarna málsins svo sem eins og í þessum málum þar sem hægt væri að vinda ofan af miklu ófrelsi og auka tækifæri nýrra aðila inn í greinina — þá á ég við ef fiskur yrði settur á markað — þá sér Sjálfstæðisflokkurinn öll tormerki á því. Þá sjá menn í þessum flokki mikla nauðsyn á því að hafa þannig frelsi að hægt sé að flytja jafnvel veiðiréttinn frá heilu landshlutunum eins og gerst hefur, þá er jafnvel talað um frelsi og þó svo að það sé í rauninni líffræðilegt rugl að hætta veiðum t.d. í Bakkaflóa eða vannýta ákveðin fiskimið þá tala menn um frelsi, en ef vera á frelsi til þess að allir geti komist á markað, keypt fisk og hafið vinnslu og það mundi verða vinnslunni mikill vítamínssprauta, þá sjá sömu menn ákveðin tormerki.

Ég er sannfærður um að því kerfi sem menn eru að baksa hér með og alltaf að koma með nýja og nýja bót á, sem gerir það jafnvel enn vitlausara en áður, verður kollvarpað fyrr en síðar. Liður í því er m.a. að koma markaðslögmálum á ný inn í þessa atvinnugrein og gera þau virk.