132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[20:34]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79, 24. maí 2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla, frá sjávarútvegsnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Bjarna Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Nefndinni bárust umsagnir frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum fiskvinnslu án útgerðar.

Með frumvarpinu er lagt til að skilyrði um það hverjir megi reka uppboðsmarkað með sjávarafla hér á landi verði víkkuð út þannig að þau samrýmist alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.

Nefndin bendir á að 1. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir undanþágu frá tvenns konar skilyrðum, annars vegar íslenskum ríkisborgararétti og hins vegar búsetu. Samkvæmt umræddri grein á undanþágan að ná m.a. til Færeyinga, án þess að tekið sé fram hvar þeir skuli vera búsettir. Nefndin telur það ófullnægjandi og leggur því til að bætt verði við að þeir skuli vera búsettir annaðhvort í Færeyjum eða hér á landi.

Í athugasemdum við frumvarpið er vitnað í samning Íslands við Færeyjar um fríverslun. Nánar tiltekið er um að ræða samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar sem undirritaður var í Hoyvík í Færeyjum 31. ágúst 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað orðsins „Færeyinga“ í 1. gr. komi: Færeyinga búsettra í Færeyjum eða á Íslandi.

Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson og Magnús Þór Hafsteinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Jón Bjarnason áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu með fyrirvara. Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eins og sagði bárust þrjár skriflegar umsagnir. Í umsögn frá Samtökum fiskvinnslustöðva segir, með leyfi forseta:

„Samtök fiskvinnslustöðva mæla með samþykkt frumvarpsins en samþykkt þess felur í sér viðbót við 3. gr. núverandi laga um uppboðsmarkaði sjávarafla en þar er lagt til að skilyrði um það hverjir mega reka uppboðsmarkaði með sjávarafla hér á landi verði útvíkkað þannig að þau samrýmist alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.“

Í umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda segir, með leyfi forseta:

„Landssamband smábátaeigenda gerir ekki athugasemdir við frumvarpið. … LS telur að breytingin sem hér er lögð til geti einungis haft jákvæð áhrif á starfssemi fiskmarkaða og geti m.a. stuðlað að betri tengingu þeirra við helstu markaðssvæði okkar í Evrópu.“

Frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar kom umsögn en við munum ræða við fulltrúa þeirra í sjávarútvegsnefnd á morgun. En hún var svona, með leyfi forseta:

„Samtök fiskvinnslu án útgerðar telja nauðsynlegt og leggja áherslu á að áður en til þess komi að útlendingum heimilist eignaraðild að íslenskum fiskmörkuðum þá verði að:

Setja inn í núverandi lög um minni hluta uppboðsmarkaði fyrir fisk ákvæði um dreifða eignaraðild að þeim.

Að leidd verði í gildi reglugerð samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 79, frá maí 2005, um uppboðsmarkaði, þar sem kveðið væri á um starfsemi uppboðsmarkaða og þá skilmála sem þeim bæri að starfa eftir, svo og reglugerð um sölu á afla sem ekki er kominn á uppboðsmarkað.“

Friðrik J. Arngrímsson frá LÍÚ og Bjarni Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða mættu líka fundinn. Friðrik var alveg sammála þessari breytingu og ekki komu fram neinar athugasemdir við frumvarpið á fundi með Bjarna. Hann sagði að þetta væri gagnkvæmt, þannig að þeir gætu stofnað markað erlendis þar sem þeir eru með viðskiptasambönd erlendis og selji erlendum aðilum fisk, sem hann telur mjög jákvætt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.