132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[20:47]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur spurt mig þriggja spurninga. Í fyrsta lagi spyr hann hvort ekki hefði verið eðlilegra að fullgilda nýja samninginn milli Íslendinga og Færeyinga áður en þetta væri gert að lögum, með hliðsjón af því að vísað er til samningsins í athugasemdum við lagafrumvarpið. Ég tel að það sé fullnægjandi að gera þetta með þessum hætti. Ef það væri hins vegar þannig að við vísuðum í samkomulagið í frumvarpstextanum sjálfum hefði það auðvitað ekki haft gildi nema að búið hefði verið að fullgilda samkomulagið. Það felur í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Alþingi eitt getur undirgengist. Það er eðlilegt, þegar við förum yfir svona mál, að við vísum í það sem við vitum að er að gerast og er nýjast og sem liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur heimilaði fyrir sitt leyti þáverandi utanríkisráðherra að undirrita þetta samkomulag og ber þess vegna pólitíska ábyrgð á þessu máli. Það er núna til meðhöndlunar á þingi Færeyinga. Það liggur líka fyrir, eins og fram kom í máli hv. þingmanns að þessi texti að samningnum hefur verið lagður fram á Alþingi og okkur er þess vegna mögulegt að kynna okkur efni hans.

Hv. þingmaður veltir líka fyrir sér hvort breytingin sem hv. sjávarútvegsnefnd vill gera á frumvarpstextanum stangist að einhverju leyti á við Hoyvíkur-samkomulagið, eins og menn hafa kallað þennan samning um íslensk/færeyskt efnahagssvæði. Ég tel að svo sé ekki. Sjávarútvegsnefnd gekk raunar úr skugga um það með því að leita sér ráða og upplýsinga hjá þeim sem komu að undirbúningi að þessu samkomulagi. Ég treysti því þess vegna að með eðlilegum hætti sé séð fyrir þessu.

Hv. þingmaður spurði að lokum hver væri ástæðan fyrir því að svo langur tími hefði liðið frá því að samningurinn var undirritaður og þangað til hann var lagður fram á Alþingi. Ég get auðvitað ekki svarað því í sjálfu sér en það er ekki nýmæli að það taki nokkurn tíma frá því að samningur er gerður og hann síðan lagður fyrir þingið. En ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni, að það verður auðvitað að ljúka þessu fyrir vorið.