132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[20:49]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við að hv. sjávarútvegsnefnd hafi sem slík leitað umsagnar eða ráðlegginga varðandi þessa breytingu. Eins og fram kemur í fyrirvara okkar þegar þetta var afgreitt út úr nefndinni þá snerist hann um að ekki væri búið að birta þennan samning, hann lægi ekki fyrir. Við gátum því á engan hátt, a.m.k. ekki við fulltrúar minni hlutans í sjávarútvegsnefnd, áttað okkur á því af hverju var verið að gera þessa breytingu varðandi Færeyinga.

Þegar maður les hana einfaldlega saman við samninginn, les hana saman við það að hvers konar mismunun milli íslenskra og færeyskra einstaklinga á grundvelli ríkisfangs er bönnuð, eins og það er skilgreint í bókun I, þá er verið að mismuna hér. Menn hlytu þá að þurfa að setja inn konar sams konar ákvæði varðandi Íslendinga sem búsettir hafa verið hér eða í Færeyjum en ekki annars staðar. Þetta er ekki sami hluturinn og ég skora á hæstv. ráðherra og formann sjávarútvegsnefndar að fara einu sinni enn yfir þetta áður en frumvarpið verður gert að lögum. Ég sé ekki betur en að þetta hljóti að stangast á við samninginn samkvæmt orðanna hljóðan.

Hæstv. ráðherra telur eðlilega að staðið með að afgreitt sé út úr sjávarútvegsnefnd mál þar sem vitnað er í samning sem stór hluti nefndarmanna hefur ekki séð og kannski enginn nefndarmanna á þeim tíma. Það þykir mér ekki eðlilegt. Mér þykir alls ekki eðlilegt að afgreiða mál út úr fagnefnd á Alþingi þar sem vitnað er í ákveðinn samning, sagt að breyting sé gerð vegna hans, þegar enginn í nefndinni hefur séð samninginn. Það eru undarleg vinnubrögð og ef þau eru eðlileg þá er það skrýtið.