132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[21:05]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem snýr að Samtökum fiskvinnslu án útgerðar er rétt að það komi fram að á fundi kom tillaga um að senda fjórum umsagnaraðilum erindi. Þau voru ekki þar inni og ekki kom beiðni frá nefndarmönnum um það. Kannski voru það mistök í upphafi. En nefndarmenn hafa hingað til getað bætt við þeim aðilum sem eiga að fá mál til umsagnar, sem er bara mjög eðlilegt. Þannig að ég brást við þegar Óskar Karlsson hafði samband við mig og bað hann um að senda umsögn og ég mundi þá taka málið fyrir á milli umræðna þar sem við vorum búnir að afgreiða málið út. Það er eðlilegur farvegur.

Við höfum verið mjög duglegir í sjávarútvegsnefnd og ég held að allir þeir sem hafa beðið um að koma og ræða við nefndina hafi komist að hjá okkur. Þannig að þetta eru bara ágætisvinnubrögð. Þetta er bara til að leiðrétta ef það er misskilningur í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar.