132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[21:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þessa athugasemd hv. þm., formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar, um það hverjir koma að við að gefa umsagnir eða koma á fund nefndarinnar varðandi málin, verð ég að segja að ég ætla engum að hafa vísvitandi haldið Samtökum fiskvinnslu án útgerðar frá því að koma að málinu með umsögn með eðlilegum hætti og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég ætla það engum.

Ég tek undir með formanni og þykir það leitt að það hafi ekki verið gert. Því það er svo eðlilegt og sjálfsagt að þessir aðilar komi sínum athugasemdum að. Mér finnst það ágæt og hárrétt viðbrögð hjá formanni nefndarinnar og nefndinni allri að taka málið inn milli 2. og 3. umr. þar sem þessum aðilum gefst kostur á að koma sínum athugasemdum á framfæri og nefndarmönnum að ræða þær athugasemdir og meta. Ég hef að öðru leyti ekkert við þau vinnubrögð að athuga og tel þau góð í sjálfu sér þó svo við hefðum að sjálfsögðu viljað sjá þessar athugasemdir koma inn í nefndina eins og aðrar athugasemdir á sínum tíma. En vinnubrögð formanns og nefndarinnar varðandi þetta finnst mér alveg hárrétt.