132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[21:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umræðuefni þann samning á milli Íslendinga og Færeyinga sem hér var vitnað til, samninginn sem var gerður í Hoyvík í Færeyjum. Ég tel, hæstv. forseti, að við eigum að lögfesta þann samning áður en við setjum þessi lög sem byggja á samningnum og vitna til orðalags í honum. Ég held að betri svipur væri á því og ég hef ekki trú á því, frekar en verið hefur, að samningur milli Íslands og Færeyja tefji þetta mál mikið. Þeir samningar hafa jafnan farið hér nokkuð greitt í gegnum sali Alþingis og afgreiðslu. Ég tek undir það að ég held það væri betri svipur á því að klára að staðfesta samninginn og afgreiða síðan málið á grundvelli þess að hann hefði fengið lagalegt gildi með staðfestingu Alþingis.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði hér áðan að það hlýtur að vera fróðlegt og kannski nauðsynlegt og rétt í málinu að fá að sjá eignatengslin og eignasamsetninguna á fiskmörkuðum í dag. Það getur ekki skemmt fyrir afgreiðslu þessa máls að slíkt liggi fyrir og menn skoði það. Ég lít svo á, miðað við þau orð sem forustumenn ríkisstjórnarmeirihlutans hafa látið falla í þessari umræðu, að ekki sé með neinum hætti verið að opna inn í íslenska fiskvinnslu eða útgerð. Ég tel þess vegna að það sé ekkert óeðlilegt við að stíga þau skref sem hér eru stigin. Ég hef þann fyrirvara að þessi mynd sé öll sýnileg og það að æskilegt er að eignaraðild að fiskmörkuðum sé dreifð.

Ég hef því miður ekki séð athugasemdir Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerðar en heyri á formanni nefndarinnar, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, að rætt verði við þau samtök áður en þetta mál verður klárað og treysti því að það verði gert. Ég legg til að þessi lagabreyting verði ekki afgreidd frá Alþingi fyrr en við höfum staðfest umræddan samning.