132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arndísi Steinþórsdóttur og Jón B. Jónasson, frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson, frá Landssambandi smábátaeigenda, og Friðrik J. Arngrímsson, frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Nefndinni bárust umsagnir frá Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjómannasambandi Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Hafrannsóknastofnun, Háskólanum á Akureyri, Landssambandi smábátaeigenda og Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að 660 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóður sjávarútvegsins fékk við sölu á eignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins renni í ríkissjóð. Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a.:

„Fé þessu skal varið til hafrannsókna og er því við það miðað að hafrannsóknir verði efldar og fé sem varið er til hafrannsókna aukið. Annars vegar er lagt til að í fjárlögum ársins 2006 verði rammi fjárveitinga Hafrannsóknastofnunarinnar hækkaður um 50 millj. kr. og um 100 millj. kr. frá og með fjárlögum ársins 2007. Enn fremur er gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins verði breytt þannig að á árinu 2006 muni a.m.k. 25 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóðurinn hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrk til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknaverkefnanna.“

Meiri hlutinn fagnar umræddum áformum og telur brýnt að Hafrannsóknastofnuninni verði veittar 100 millj. kr. til frambúðar frá og með árinu 2007. Þá lýsir meiri hlutinn yfir þeim vilja sínum að á árinu 2006 verði miðað við að sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir að verði varið til sérstakra styrkja til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli, að lágmarki 25 millj. kr., verði allt að 40 millj. kr. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson, formaður og framsögumaður, Kristinn H. Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birkir J. Jónsson.

Virðulegi forseti. Hér er tekið til 2. umr. frumvarp um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. En fé þetta kemur í framhaldi af því að gildistími laga um Þróunarsjóð var styttur um rúm fjögur ár og var hann því aflagður 1. október síðastliðinn. Verkefni Þróunarsjóðsins er lokið og hefur þróunarsjóðsgjaldið verið fellt niður en samhliða verið lagt á veiðigjald. Eignir sjóðsins eru komnar upp í rúmar 700 millj. kr. með vöxtum og er búið að selja eignir sjóðsins og greiða upp skuldir. Við lok Þróunarsjóðs var ákveðið að ráðstafa andvirði hans í Verkefnasjóð sjávarútvegsins og skyldi þessum fjármunum varið til hafrannsókna.

Hér er um mjög háa upphæð að ræða og kannski ekki skynsamlegt að ráðstafa henni á stuttum tíma. Því hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra lagt til að andvirði þess fjár sem rann í verkefnasjóð sjávarútvegsins renni í ríkissjóð. Það er 660 millj. kr. Í staðinn, sem ég tel vera stóra málið í þessari umræðu, þarf að tryggja til frambúðar viðbótarfjármagn til Hafrannsóknastofnunar í hafrannsóknir. En það eru 50 millj. kr. á þessu ári og aðrar 50 millj. kr. árið 2007. Við erum að tala varanlega um 100 millj. kr. á ári í hafrannsóknir til frambúðar, sem er 10% aukning, og því ber að fagna.

Á hverju þingi eru teknar nokkuð margar umræður um hafrannsóknir og fjármögnun til hafrannsókna.

Hér er verið að bregðast skynsamlega við. Hvað gera þessar varanlegu 100 millj. kr.? Segjum að þær verði einvörðungu notaðar til að fjölga rannsóknardögum á Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni. Við erum að ræða um 90 daga í viðbót á hvoru skipi fyrir sig. Níutíu daga. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins verði breytt þannig að árið 2006 muni að minnsta kosti 25 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóður hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli.

Meiri hluti sjávarútvegsnefndar gerir tillögu í samræmi við hæstv. sjávarútvegsráðherra um að þessi upphæð geti orðið að 40 millj. kr. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrki til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknarverkefnanna.

Með þessari tillögu vinnst tvennt. Annars vegar eru rannsóknir innan Hafrannsóknastofnunar auknar í kjölfar hærri fjárveitinga og hins vegar gefst öðrum aðilum sem starfa utan Hafrannsóknastofnunar færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir, en sá hópur hefur haft takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa.

Hafrannsóknir eru grunnurinn að því að byggja upp þekkingu um hafið og lífríki þess, sérstaklega til að geta metið hvernig hagkvæmast er og skynsamlegast að nýta auðlindir hafsins. Það er mikilvægt að fá varanlegt viðbótarfjármagn til enn frekari hafrannsókna.

Í greinargerð sem sjávarútvegsnefnd sendi til fjárlaganefndar vegna fjárlagaársins 2006 stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að í meðförum Alþingis verði Hafrannsóknastofnuninni veitt 50 millj. kr. framlag svo auka megi úthald rannsóknaskipa stofnunarinnar um samtals 87–97 daga á ári. Nauðsynlegt er að úthald skipanna verði aukið svo efla megi veiðarfærarannsóknir og rannsóknir á uppsjávarfiski. Á síðasta ári var úthald Árna Friðrikssonar 211 dagar og úthald Bjarna Sæmundssonar 176 dagar. Á yfirstandandi ári er úthald áætlað 180 dagar á Árna og 203 dagar á Bjarna. Meðalkostnaður á dag við rekstur Árna er 1.150 þús. kr. og Bjarna 900 þús. kr. Tillaga nefndarinnar er byggð á því að úthald skipanna verði 235–240 dagar fyrir hvort skip. Samkvæmt útreikningum Hafrannsóknastofnunarinnar kostar hver viðbótardagur vegna fjölgunar úthaldsdaga um 55–60 á Árna 650–700 þús. kr. og fjölgunar úthaldsdaga um 32–37 á Bjarna 500–550 þús. kr.“

Eins og fram kom í þessari greinargerð hefur verið tekið tillit til vilja sjávarútvegsnefndar og því ber að fagna. Það koma 50 millj. í viðbót árið 2007.

Virðulegi forseti. Í áliti minni hluta sjávarútvegsnefndar kemur fram að það hafi orðið sinnaskipti hjá meiri hluta nefndarinnar með tilvísun í nefndarálit í þingskj. 991 í 387. máli 131. löggjafarþings. Á þeim tíma var það ákvörðun að ráðstafa eignum Þróunarsjóðs í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þetta er ákvörðun á sínum tíma. En með þeirri breytingu sem nú er lögð fram og við erum að ræða hér þá telur meiri hluti sjávarútvegsnefndar það skynsamlegt til lengri tíma litið að auka fjárveitingar til hafrannsókna um 100 millj. kr. á ári. 100 millj. kr. sem eru komnar til að vera og framreiknast síðan árlega. Það kemur einnig á óvart að í áliti minni hluta sjávarútvegsnefndar skuli ekki minnst á þá breytingu sem meiri hluti sjávarútvegsnefndar gerir, að hækka fé til hafrannsókna úr 25 millj. kr. í allt að 40 millj. kr. Miðað við málflutning þeirra hér á Alþingi hefði ég átt von á að þessu yrði sérstaklega fagnað í áliti minni hlutans.

Ég vil einnig geta þess að meiri hluti sjávarútvegsnefndar gerir sér grein fyrir að umsóknir til þessara rannsókna eru metnar hverju sinni. Ef ekki næst að ráðstafa því fé, þ.e. 40 millj. kr., á þessu ári verði því sem eftir stendur ráðstafað og bætt við framlag næsta árs á eftir.

Ég ætla að fara aðeins yfir umsagnir um frumvarpið. Vélstjórafélag Íslands hefur ekki athugasemdir við frumvarpið. Sjómannasamband Íslands gerir ekki athugasemdir við frumvarpið enda verði tryggt að fé það sem um ræðir verði nýtt til hafrannsókna. Samtök fiskvinnslustöðva styðja að ofangreint frumvarp verði að lögum.

Líffræðistofnun Háskóla Íslands segir, með leyfi forseta:

„Markmið með frumvarpinu er að nýta fjármuni úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til eflingar hafrannsóknum. Þetta er því mikilvægt frumvarp sem brýnt er að verði að lögum því öflugar hafrannsóknir eru forsenda skynsamlegrar nýtingar auðlinda sjávar.

Fram kemur að fyrirhugað er að verja hluta fjármunanna til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Með þessu er verið að auðvelda öðrum en þeim sem starfa á Hafrannsóknastofnuninni að stunda hafrannsóknir.

Þetta er ákaflega mikilvæg stjórnvaldsaðgerð sem mun eflaust skila sér í aukinni þekkingu á lífríki sjávar. Veruleg reynsla við sjávarrannsóknir er til staðar víða í íslensku samfélagi, t.d. innan Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Hólaskóla auk háskólasetra sem tengjast þessum skólum. Auknir möguleikar þessara aðila til rannsókna á lífríki sjávar munu eflaust leiða til nýrrar þekkingar og nýrra atvinnutækifæra. Þetta mun jafnframt leiða til eflingar framhaldsnáms í tengslum við hafrannsóknir og aukinnar nýliðunar sérfræðinga á þessu fræðasviði.“

Í umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda segir, með leyfi forseta:

„Landssamband smábátaeigenda gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

Landssamband smábátaeigenda telur að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref í að efla hafrannsóknir enn frekar. Auk þess mun samþykkt frumvarpsins opna leið fyrir áhugasama sjálfstætt starfandi vísindamenn og aðra sem búa yfir þekkingu á lífríki sjávar að koma þekkingu sinni á framfæri. Það er skoðun Landssambands smábátaeigenda að það frumkvæði sem frumvarpið gerir þarna ráð fyrir geti, ef vel tekst til, opnað fyrir ferska strauma í hafrannsóknum.“

Í umsögn Háskólans á Akureyri segir, með leyfi forseta:

„Háskólinn á Akureyri gerir ekki athugasemdir við meginefni frumvarpsins.

Háskólinn á Akureyri fagnar frumvarpi þessu þar sem lagt er til að auka fé til hafrannsókna, bæði til Hafrannsóknastofnunarinnar og einnig til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Þetta mun gera öðrum aðilum en Hafrannsóknastofnuninni, svo sem háskólum, kleift að stunda rannsóknir á hafinu og lífríki þess. Aðrir samkeppnissjóðir hafa haft yfir svo litlu fjármagni að ráða að erfitt hefur verið að fá frá þeim styrki af þeirri stærð sem þarf til að stunda hafrannsóknir sem í eðli sínu eru afar kostnaðarsamar. Að ýmsu er að huga í þessu sambandi en það má benda á að sú fjárhæð sem ætluð er í þetta er jafngildi 20 daga reksturs á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni RE 200. Það er mjög mikilvægt að þeir sem sækja um þessa styrki eigi vísan aðgang að skipum Hafrannsóknastofnunarinnar sem eru búin ýmsum sérhæfðum tækjum til hafrannsókna.“

Frá Hafrannsóknastofnun segir m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er á hinn bóginn ljóst að fjárhagsrammi Hafrannsóknastofnunarinnar hefur nokkuð styrkst þrátt fyrir það sem hér að ofan greinir. Það verður líka að teljast eðlilegt í ljósi þess að fyrri lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins gerðu ráð fyrir að við uppgjör hans skyldu eignir umfram skuldir renna alfarið til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Enn er þó þörf fyrir verulega aukningu rekstrarfjár vegna úthalds rannsóknaskipa.“

Umsögnin frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga er þannig, með leyfi forseta:

„Félag íslenskra náttúrufræðinga telur óeðlilegt að fjármunir sem áður hafa verið eyrnamerktir rannsóknum skuli renna aftur í ríkissjóð. Telur Félag íslenskra náttúrufræðinga að með þeim hætti sé markvisst verið að draga úr fé til rannsókna sem nú þegar er allt of takmörkuðum fjármunum varið í.“

Í umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandinu segir:

„Farmanna- og fiskimannasambandið styður frumvarpið og hvetur til aukinna fjárveitinga til haf- og fiskirannsókna.“

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.