132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar á þingskj. 857 um frumvarp til laga um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, sem við fjöllum hér um.

Samkvæmt lögum nr. 27/2005, um breytingu á lögum nr. 152/1996, um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, var ákveðið að fjármunir Þróunarsjóðs sjávarútvegsins skyldu renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Ekki lágu fyrir endanlegir útreikningar á því hversu miklir fjármunirnir gætu verið, en í umræðum kom fram að um gæti verið að ræða a.m.k. 500–600 millj. kr.

Nefndin var sammála um að ekki væri eðlilegt að skilyrða þá fjármuni sem um ræðir með þeim hætti að þeir rynnu einungis til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, heldur væri eðlilegt að gera þá breytingu að fjármunirnir rynnu til hafrannsókna á samkeppnisgrunni. Í nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar um frumvarpið, sem varð að lögum nr. 27/2005, segir:

„Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.“

Minni hlutinn hefur tekið undir það sjónarmið sem fram kemur í fyrrgreindu áliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar frá því í mars 2005 og hefur litið þannig á að féð sem um ræðir eigi að koma til viðbótar því fé sem árlega er sett til hafrannsókna. Minni hlutinn lýsir undrun sinni á þeim sinnaskiptum meiri hlutans sem fram koma í umfjöllun um frumvarp þetta.

Frumvarpið sem hér um ræðir gerir ráð fyrir að nú skuli ákvörðuninni, sem tekin var með lögum nr. 27/2005, breytt í þá veru að 660 millj. kr. skuli renna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins í ríkissjóð. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að tilgangur þess sé að færa umrætt fé úr Verkefnasjóðnum í ríkissjóð og þaðan skuli það renna í fjárlögum næstu ára til Hafrannsóknastofnunarinnar til aukinna rannsókna á hennar vegum. Einungis er gert ráð fyrir að 25 millj. kr. verði varið til samkeppnisrannsókna. Þessi breyting þýðir í raun að fjármunir Þróunarsjóðsins, sem áður höfðu runnið í Verkefnasjóð sjávarútvegsins, eru teknir í ríkissjóð í þeim tilgangi að greiða fyrir auknar rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar, sem allir eru sammála um að séu nauðsynlegar, í stað þess að fjármögnun slíkra rannsókna sé tryggð í fjárlögum.

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að verja umtalsvert meira fé til hafrannsókna en gert hefur verið og hefur oft lýst furðu sinni á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skera fé til rannsókna á auðlindum hafsins svo við nögl að ekki sé unnt að halda úti nauðsynlegum grunnrannsóknum á hafinu og lífríki þess. Minni hlutinn taldi að það fé sem kom úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins og rann í Verkefnasjóðinn væri löngu tímabær viðbót við rannsóknarfé á þessu sviði og jafnframt væri opnað fyrir rannsóknir annarra aðila en Hafrannsóknastofnunarinnar. Nú liggur fyrir af hálfu meiri hlutans sú stefnubreyting að svo sé ekki og fjármunir Verkefnasjóðsins skuli gerðir upptækir í ríkissjóð.

Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins og hefur jafnframt lengi bent á nauðsyn þess að setja nýjar reglur um með hvaða hætti er skipað í stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Það geti varla samrýmst góðum stjórnsýslureglum að sjávarútvegsráðherra skipi einungis undirmenn sína í ráðuneytinu í stjórn sjóðsins og hafi þannig í raun einn um það að segja hvernig hundruðum milljóna af fé sjóðsins er ráðstafað. Nauðsynlegt er að breyta þeim reglum sem um sjóðinn gilda um leið og mikilvægt er að sjóðurinn haldi því fé sem honum var ætlað frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Þetta er gert á Alþingi, 1. mars 2006. Undir þetta minnihlutaálit rita Jón Gunnarsson, Jóhann Ársælsson, Kristján L. Möller og Magnús Þór Hafsteinsson.

Herra forseti. Eins og fram kemur í minnihlutaálitinu lýsum við í minni hluta sjávarútvegsnefndar undrun okkar á sinnaskiptum meiri hlutans í nefndinni. Hér við 1. umr. var farið nokkuð ítarlega í gegnum hvaða umræður höfðu átt sér stað í sjávarútvegsnefnd þegar tekin var sú ákvörðun að breyta frumvarpi sem kom inn í þingið frá þáverandi sjávarútvegsráðherra í þá veru að fjármunir Þróunarsjóðs, sem renna ættu í Verkefnasjóðinn, ættu ekki að eyrnamerkjast eingöngu til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar heldur bara til hafrannsókna almennt. Um það var nokkuð góð sátt í nefndinni og öllum þótti það skynsamleg ráðstöfun að fjármunir úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins sem útvegurinn sjálfur hefur búið til — því eins og fram kom í ræðu hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra við 1. umr. hefur sjávarútvegurinn, útgerðin og fiskvinnslan, greitt rúma 6 milljarða kr. í Þróunarsjóð sjávarútvegsins á undanförnum 11 árum, ef ég man rétt, og búið til þennan sjóð og búið til þessar milljónir sem nú er verið að gera, að okkar viti, upptækar í ríkissjóð.

Þegar hv. sjávarútvegsnefnd sendi erindi til fjárlaganefndar og óskaði eftir að árlegum fjárveitingum til Hafrannsóknastofnunarinnar yrði lyft, og þar var talað um 50 millj. kr. á ári til að auka rannsóknir á vegum stofnunarinnar, var ekki til umræðu að taka fjármuni úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins sérstaklega í það. Það er, herra forseti, ákveðin sögufölsun í því fólgin að halda því fram. Vegna þess að á þeim tíma sem sjávarútvegsnefnd var sammála um að senda fjárlaganefnd erindi um að það yrði að auka fjármuni til hafrannsókna var það ekkert í umræðunni að seilast í þennan Verkefnasjóð, að seilast í fjármuni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og nota þá til að auka fjármagn til grunnrannsókna á vegum stofnunarinnar.

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir að sitja hér umræðuna um þessi fjögur mál sem tengjast sjávarútvegsráðuneytinu. Oft og iðulega upplifum við nefndarmenn það að ráðherrar málaflokka gefa sér ekki tíma til eða ómaka sjálfa sig á að sitja við 2. umr. mála sem þeir hafa sjálfir lagt fram, því þá eru málin komin á forræði nefndanna og nefndarformenn fylgja þeim yfirleitt úr hlaði.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur setið umræðuna í dag og í kvöld og ég tel fulla ástæðu til að vekja á því athygli og þakka fyrir það. Spurningin sem ég hafði til hæstv. ráðherra var: Er vitað núna hver lokatalan í uppgjöri Þróunarsjóðs er? Þessi fjárhæð sem hefur verið að vaxa í Þróunarsjóðnum jafnt og þétt frá því við byrjuðum að tala um þetta mál. Ég man eftir því að menn töluðu um þegar frumvarpið kom fram á sínum tíma að upphæðin væri í kringum 400 milljónir, það voru fyrstu tölur frá ríkinu, frá ráðuneytinu. Eftir að hafa farið yfir málið í sjávarútvegsnefnd og kallað eftir frekari upplýsingum töluðu menn um að þetta gætu orðið 500–600 milljónir. Nú er alveg ljóst að mun meira fé kemur út úr Þróunarsjóðnum en gert var ráð fyrir því að hinn 1. október sl. afhenti stjórn Þróunarsjóðsins Verkefnasjóði sjávarútvegsins 689 milljónir og það er ekki lokauppgjör, eftir því sem ég best fæ skilið, heldur er það einhver áfangagreiðsla sem kom úr Þróunarsjóðnum til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, 689 milljónir.

Þegar menn í ráðuneytinu sjá þessa háu tölu er eins og þeir átti sig allt í einu á því um hve mikla fjármuni er þarna að ræða þó að við í minni hlutanum hefðum í umræðunni verið að leiða að því líkur að þetta gætu verið um 500 milljónir miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni við 1. umr. málsins, að í ljósi þess hvað hér sé um háa fjárhæð að ræða þyki rétt að leggja fram frumvarp sem taki — geri upptækt, leyfi ég mér að segja — 660 milljónir af þessum 689 sem stjórn Þróunarsjóðsins var að skila inn í Verkefnasjóðinn vegna þess að það sé óeðlilegt að svona miklir fjármunir fari inn í sjóð sem úthluti peningum á þeim grunni sem Verkefnasjóður sjávarútvegsins gerir.

Ég get verið sammála hæstv. ráðherra að það er óeðlilegt að svona miklum fjármunum sé ráðstafað úr sjóði sem hefur stjórn eins og hér var um rætt, skipuð á þann hátt sem um er rætt. En minni hlutinn í sjávarútvegsnefnd og við hér minni hlutinn á Alþingi höfum verið að benda á að það sé nauðsynlegt að breyta skipun í stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, það sé ekki eðlilegt að þrír undirmenn ráðherra úr ráðuneytinu skipi þá stjórn og fari með hundruð milljóna kr., því að jafnvel þó að þessar 660 milljónir séu gerðar upptækar þá renna hundruð milljóna kr. í þennan sjóð á hverju ári í svokölluðum hafróafla og upptökuafla. Hvernig sem á það er litið er stjórnun þessa sjóðs ekki í samræmi við hefðbundnar og eðlilegar stjórnsýslureglur.

Hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því þegar hann sér hvað miklir peningar eru komnir inn í sjóðinn og telur eðlilegt, eins og hann nefndi í ræðu sinni við 1. umr., að það sé frekar Alþingi sem úthluti þessum fjármunum, eins og hæstv. ráðherra sagði, í samræmi við ramma fjárlaga, að samþykkt á Alþingi yrði til þess að þessum fjármunum yrði úthlutað.

Ef maður væri nýkominn hér inn á þing og sæi ekki hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig, alla vega hjá núverandi ríkisstjórn þar sem ekki verður annað séð en að það sé nánast í höndum ráðherranna eða ríkisstjórnarinnar að marka fjárlagaramma, ég hef ekki orðið mikið var við að þingmenn hvorki stjórnar eða stjórnarandstöðu hafi mikil áhrif á það, þá virðist þetta afskaplega fallegt og það gæti verið eðlilegt að skoða þetta. En það sem hæstv. ráðherra sagði við 1. umr. og ég vil leyfa mér að kalla sögufölsun er að hann fullyrti að það hefði verið lagt til í fjárlögum ársins 2006 og samþykkt á Alþingi að rammi fjárveitinga Hafrannsóknastofnunar yrði hækkaður um 50 millj. kr. Þetta gekk eftir eins og kunnugt er og við samþykktum á Alþingi, sagði hæstv. ráðherra, þessa tilhögun í fjárlögum ársins 2006. Jafnframt var lagt til að rammi stofnunarinnar hækki aftur um aðrar 50 milljónir frá og með fjárlögum ársins 2007, og frá því var greint, og verði þá 100 millj. kr. hærri á árinu 2007 en hann var á árinu 2005.

Ráðherra fullyrti síðan í framhaldi af þessu í ræðu sinni að það hefði verið um rætt að þessir fjármunir kæmu úr Verkefnasjóðnum, þetta væri partur af þeim fjármunum sem voru í Þróunarsjóðnum sem ættu að fara í þetta. Ég fullyrði að það var ekki, hvorki í sjávarútvegsnefnd þegar hún sendi erindi sitt til fjárlaganefndar eða síðar, það var aldrei minnst á að þessir auknu fjármunir sem áttu að renna til grunnrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun kæmu úr þessum sjóði með þessum hætti, aldrei.

Aftur á móti átti Hafrannsóknastofnun eins og aðrir mikinn möguleika á því að sækja um og fá fjármagn til viðbótarrannsókna úr þessum sjóði og það var það sem menn voru að fagna á þeirri stundu þegar ljóst var að svona miklir fjármunir kæmu úr sjóðnum að það gæti komið til sem viðbót á móti því sem áður yrði sett á fjárlögum og allir hafa verið sammála um að sé skammarlega lítið miðað við þennan grunnatvinnuveg okkar sem sjávarútvegurinn þó er enn þá, þeir fjármunir sem lagðir eru til á fjárlögum til að reka þau hafrannsóknaskip sem við eigum og sinna þeim grunnrannsóknum sem nauðsynlegar eru, ég tala nú ekki um í ljósi þess hvernig okkur hefur gengið að byggja upp fiskstofnana.

Í framsögu sinni lýsti hv. formaður sjávarútvegsnefndar undrun sinni á því að í nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar væri ekki sérstakur kafli þar sem þeirri tímamótaákvörðun meiri hlutans væri sungið lof og prís, að leggja það til í nefndaráliti sínu að það mætti verja allt að 40 millj. kr. til hafrannsókna á samkeppnisgrunni sem aðrir gætu sótt um. Við í minni hlutanum sáum enga sérstaka ástæðu til að fagna þessu sérstaklega vegna þess að kjarkurinn var nú ekki meiri hjá meiri hluta sjávarútvegsnefndar en sá að í nefndaráliti meiri hlutans stendur „varið til sérstakra styrkja til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli að lágmarki 25 millj. kr.“— þetta er nú bara sama tala og var í frumvarpi ráðherrans — „verði allt að 40 millj. kr.“. Það er ekki gerð breyting, það er ekki gerð breytingartillaga, það er ekki gerð nein bein skuldbinding heldur er eingöngu verið að tala um að þetta gætu orðið 40 millj. kr. Það hefði þá farið betur á því að ganga frá því alla leið þannig að þetta væri bara niðurneglt að það yrði ekki minna en 40 milljónir.

Það sem hæstv. ráðherra sagði síðan við 1. umr. var að þeir samkeppnisaðilar sem ætluðu að sækja í þessa fjármuni, sem þá voru 25 milljónir, yrðu að leggja fjármuni á móti og hæstv. ráðherra var í ræðu sinni kominn með þessa fjármuni allt upp í 100 milljónir, sagði að þetta gætu orðið 50 milljónir, 75 milljónir eða 100 milljónir, allt eftir því hvaða reglur menn settu um hvað þyrfti að koma á móti. Við getum rétt ímyndað okkur hverjir það eru í rannsóknum, sjálfstæðum samkeppnisrannsóknum á þessu sviði, sem hafa mikið bolmagn til þess að leggja tugi eða hundruð milljóna á móti styrk sem kæmi frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins til að sinna ákveðnum verkefnum, þannig að þessi kvöð sem kemur fram í umræðunni af hálfu hæstv. ráðherra um að ekki verði úthlutað nema fjármunir komi á móti þýðir einfaldlega það að stór hluti þeirra sjálfstæðu vísindamanna eða sjálfstæðu fyrirtækja sem hefðu áhuga á því að sækja í þennan sjóð og stunda viðbótarrannsóknir munu ekki geta gert það. Þá er spurning hvort þeim fjármunum sem þarna er verið að eyrnamerkja verði yfir höfuð úthlutað eða hvort þeir sitji eftir í sjóðnum.

Í umsögn um frumvarpið þegar það var lagt fram frá fjármálaráðuneytinu, Fjárlagaskrifstofu kom fram að það væri mat fjármálaráðuneytisins að frumvarpið hefði ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs, verði það að lögum. Þetta þykir mér að mörgu leyti undarlegt mat einfaldlega vegna þess að ef ekki hefði verið seilst í Verkefnasjóðinn til að ná í þessar viðbótar 50 milljónir eða 100 milljónir til hafrannsókna á ári þá hefði örugglega þurft að gera ráð fyrir því á fjárlögum og taka það af hefðbundnum tekjustofnum ríkisins þannig að það hefði haft áhrif á og þessi gerð hefur áhrif á afkomu ríkisins vegna þess að þarna er verið að seilast í fjármuni sem útgerðin bjó til, sem fiskvinnslurnar bjuggu til og búið var að eyrnamerkja hér í fullu samkomulagi á þinginu, ekki beint í ríkissjóð heldur í þennan samkeppnisrannsóknasjóð. En ríkið seilist og tekur 660 milljónir.

Um leið og reynt væri að svara því hvort vitað væri hvað mikið kæmi út úr Þróunarsjóðnum væri gott að vita hvort hæstv. ráðherra ætlar að seilast eftir meiri fjármunum í Verkefnasjóð sjávarútvegsins, eins og hér er verið að gera. Ef uppgjörið á Þróunarsjóðnum verður talsvert hærra en þessar 689 milljónir, hyggst ráðherra seilast í það með sama hætti og hér er verið að gera og gera þá fjármuni upptæka í ríkissjóð?

Í umsögnum um þetta frumvarp gætti oft og tíðum misskilnings og í mörgum umsögnum sem hv. formaður sjávarútvegsnefndar las hér upp, ég hjó ég eftir því bæði hjá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, var verið að fagna því að aukið fé væri lagt til rannsókna. Það er ekki verið að gera með þessu frumvarpi. Það var búið að eyrnamerkja þetta fé til rannsókna. Það eina sem verið er að gera er að gera þetta fé upptækt í ríkissjóð til að beina því síðan á fjárlögum til Hafrannsóknastofnunar en ekki sem viðbót eins og áður var gert ráð fyrir. Ég vona að þeir sem hafa sent þessar umsagnir geri sér grein fyrir því að telji þeir að þetta sé einhver viðbót við fjármuni til hafrannsókna þá hafa þeir lesið vitlaust út úr því sem hér er sagt í lagatexta eða frumvarpi. Gott væri ef hv. formaður sjávarútvegsnefndar gæti svarað því þannig að það væri þó ekki misskilningur sem héngi í loftinu um það hvort með þessu frumvarpi og þessari breytingu sé um að ræða aukið fé til hafrannsókna, því að samkvæmt þeim lögum sem nú gilda var búið að merkja þetta fé til þess þannig að hér er ekki um aukið fé til hafrannsókna að ræða.

Ég hjó eftir því í umsögn frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga að þeir hafa áttað sig akkúrat á því hvað hér er um að vera og, með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að lesa þessa stuttu umsögn en þar segir:

„Umsögn um frumvarp til laga um Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Félag íslenskra náttúrufræðinga telur óeðlilegt að fjármunir sem áður hafa verið eyrnamerktir rannsóknum skuli renna aftur í ríkissjóð. Telur Félag íslenskra náttúrufræðinga að með þeim hætti sé markvisst verið að draga úr fé til rannsókna sem nú þegar er allt of takmörkuðum fjármunum varið í.“

Þetta er í hnotskurn akkúrat það sem þetta frumvarp snýst um, þetta snýst um algjör sinnaskipti hjá flestum meðlimum í meiri hluta sjávarútvegsnefndar, sinnaskipti sem tók örfáa mánuði að fá þá til að framkvæma eða snúast um. Það voru allir algjörlega sammála um það og þar á meðal hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann var óbreyttur þingmaður og fulltrúi í sjávarútvegsnefnd, að best væri að gera þetta þannig að eyrnamerkja þetta ekki Hafrannsóknastofnun heldur leyfa Verkefnasjóðnum að úthluta þessu. En þegar ljóst var hvað fjármunirnir voru miklir og að ekki virtist vera hægt að ná í fjármuni eftir eðlilegum leiðum af fjárlögum ríkisins til að auka hafrannsóknir eins og þarf að gera þá hafi þrautalendingin orðið sú að seilast í þennan sjóð, seilast í Þróunarsjóð sjávarútvegsins og þá um leið Verkefnasjóðinn eins og lögin voru þá orðin.