132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:57]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Enn verð ég að leiðrétta hv. formann sjávarútvegsnefndar. Hann heldur því fram að ég hafi talað um að til væru réttar umsagnir í þessu máli og rangar. Það sagði ég ekki. Ég sagði að þegar lesið væri í gegnum umsagnir sem byrjuðu á að verið væri að auka fé til hafrannsókna væri augljóslega um misskilning að ræða vegna þess að með frumvarpinu væri fé til hafrannsókna ekki aukið.

Það vakti athygli mína að hv. formaður sprangaði fimlega fram hjá því að svara spurningunni um hvort fjármunir til hafrannsókna mundu aukast með þessu. Svarið við því er bara eitt. Svarið er nei. Ef það koma fram umsagnir, sama frá hverjum þær koma, sem segja að þarna sé fé til hafrannsókna aukið þá hlýtur að vera eðlilegt að benda á að þar gæti einhvers misskilnings.

Það vakti einnig athygli mína, herra forseti, að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson stóð hér úthlutaði fjármunum á fjárlögum áranna 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015. Ég veit ekki hvaða heimild hv. þingmaður hefur til þess. Ég veit ekki einu sinni hvort hv. þingmaður verður á þingi til að taka þátt í afgreiðslu fjárlaga á þeim tíma. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég verð á þingi til að taka þátt í afgreiðslu fjárlaga á þeim tíma.

Það er þannig með fjárlögin að það þarf að samþykkja þau frá ári til árs. Þegar þessir fjármunir úr sjóðum Þróunarsjóðs verða uppurnir, ef kjarkurinn verður ekki meiri hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, svo ég tali nú ekki um hv. formann sjávarútvegsnefndar, til að ná í fé til rannsókna en nú er þá býð ég ekki í að einhverjir viðbótarfjármunir komi, þegar þeim fjármunum sem verið er að „sjanghæja“ úr þessum sjóðum hefur verið eytt í grunnrannsóknir, sem fjármunir úr ríkissjóði í gegnum fjárlög eiga að standa undir.