132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[13:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á síðustu metrunum í vinnslu eða umfjöllun frumvarps þessa hafa komið fram mjög alvarlegar athugasemdir nú síðast á fundi í sjávarútvegsnefnd þar sem við hittum fulltrúa Samtaka fiskvinnslu án útgerðar, sem eru stærstu viðskiptavinir fiskmarkaða hér á landi. Það er skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að málið sé þess eðlis að það þurfi að skoða það miklu betur, það þurfi miklu meiri og vandaðri umfjöllun í sjávarútvegsnefnd áður en það getur orðið að lögum. Vaknað hafa það alvarlegar spurningar varðandi þessa lagasetningu. Ég vil því nota tækifærið til að mælast til að málið verði tekið til mjög vandaðrar umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd milli 2. og 3. umr. Við í Frjálslynda flokknum munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.