132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:14]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það frumvarp sem hv. þingmaður minnist hér á er á leiðinni út úr nefnd án nokkurra breytinga af hálfu nefndarinnar. Það heitir að forminu til frumvarp um opinber hlutafélög eða gerir ráð fyrir að til séu opinber hlutafélög. Sú breyting sem helst verður gerð er sú að fjölmiðlum er heimilt að senda blaðamann á aðalfund slíks félags, til að hlusta á hvað? Til að hlusta á skýrslugerð embættismanna félagsins við hluthafann sem er einn, sem er ráðherrann. Það er allt sem í því felst og ekki hefur verið litið til þeirra ákvæða sem lögð eru til í frumvarpi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti með öðrum um þessi opinberu hlutafélög. Það er því ljóst að frumvarp þetta bætir ekki úr því sem hér er sagt. Munurinn á Ríkisútvarpinu núna og Ríkisútvarpinu hf. að þessu leyti er sá að upplýsingalög gilda um Ríkisútvarpið núna en gilda ekki um Ríkisútvarpið hf. Og ég spyr aftur: Hvers vegna mega þau ekki gera það?