132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Ég er algerlega á móti því. Reynslan sýnir að hlutafélagavæðing er yfirleitt undanfari einkavæðingar að öllu eða að hluta. Ungliðadeildir Sjálfstæðisflokksins hafa árum saman samþykkt ályktanir þar sem lýst er vilja til að selja Ríkisútvarpið. Bæði Heimdallur og Samband ungra sjálfstæðismanna. Þetta hefur verið ítrekað á síðustu árum.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur flutt tillögu á þinginu um að selja Ríkisútvarpið. Mig langar að spyrja hv. formann menntamálanefndar hvort hann sé enn þeirrar skoðunar að stefna beri að því að selja Ríkisútvarpið.