132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir, að ég þori ekki að gangast (Gripið fram í.) við mínum fyrri skoðunum og kallar mig ungan þingmann. Því er þá til að svara að hv. þingmaður, sem er kominn heldur betur lengur (Gripið fram í.) á aldur en ég, virðist vera farinn að missa heyrnina vegna þess að ég sagði í andsvari mínu, hv. þingmaður, að skoðanir mínar á ríkisrekstri og fjölmiðlum hefðu ekkert breyst. (Gripið fram í: Þú þorir ekki að …)

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og leyfi mér að hafa þá skoðun, að ef pólitískur meiri hluti er fyrir því að reka ríkisútvarp, þá geri ég þá kröfu að það sé gert með skynsamlegum hætti og það er skynsamlegra, hv. þingmaður, að reka Ríkisútvarpið á hlutafélagaformi en á sjálfseignarstofnunarformi eins og hv. þingmaður vill gera. 99% af öllum þeim sem fara út í einhvern rekstur velja hlutafélagareksturinn (Forseti hringir.) en ekki sjálfseignarstofnunarreksturinn (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður leggur til, enda virðist hann ekki hafa hundsvit á (Forseti hringir.) fyrirtækjarekstri.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta orða sinna í þessari umræðu og halda sig innan tímamarka.)