132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst svaraði hv. þingmaður ekki spurningu minni. Ég var að spyrja um skattheimtur og tekjur Ríkisútvarpsins í núverandi formi og með tilliti til þeirra breytinga sem nú standa fyrir dyrum. Ég óska eftir svörum við því.

Hv. þingmaður segir að réttindi starfsmanna séu betur tryggð í þessu frumvarpi en í öðrum sambærilegum frumvörpum. Ég vil staðnæmast við eitt atriði. Ég vil staðnæmast við biðlaunarétt. Hann er skertur. Hann er t.d., svo ég taki ákveðið dæmi máli mínu til stuðnings, lakari en biðlaunaréttur starfsmanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann er lakari og ég óska eftir skýringum á þessu. Hvað veldur því?